140. löggjafarþing — 23. fundur,  15. nóv. 2011.

þingsköp Alþingis.

27. mál
[18:10]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég sagði áðan að hv. þm. Siv Friðleifsdóttir hefði sagt að andsvör væru af hinu illa. Það var ekki alveg rétt eftir haft (Gripið fram í.) því að hún sagði að misnotkun andsvara væri af hinu alla. (Gripið fram í.) Ég stend við það að ég tel að andsvör séu mjög gott form til að koma skoðunum sínum á framfæri á stuttum tíma. (Gripið fram í: Sammála.) Og snöggt.

Ég bendi á það að meðalræðutími hjá mér er 2,6 mínútur í gegnum tíðina.

Ég sakna þess að hv. þm. Margrét Tryggvadóttir vísaði til seinni tíma lausnar. Það er nefnilega mjög mikilvægt að hafa neyðarhemil á hverju einasta augnabliki. Ef neyðarhemill er ekki til staðar getur verið keyrt varanlega yfir þingið. Þá gerist það ekki aftur, þessi tæki voru til að setja neyðarhemilinn á. Hann verður ekki nema með bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla hefur ekkert að segja vegna þess að samkvæmt stjórnarskrá eru þingmenn bundnir af sannfæringu sinni, bæði gömlu stjórnarskránni og þeirri sem menn stefna að að koma á. Ef þingmenn eru eingöngu bundnir af sannfæringu sinni eiga þeir ekki að hlusta á þjóðaratkvæðagreiðslur. Ég vil fyrst sjá þann neyðarhemil áður en ég sleppi neyðarhemlinum, en auðvitað er málþóf af hinu illa. Ég hef eiginlega aldrei eða bara í eitt skipti, í Icesave, nálgast það að fara í málþóf, þegar ég fór að endurtaka mig eða halda innihaldslausar ræður.