144. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2014.

staða barnaverndar í landinu.

[17:37]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir þessa umræðu. Ég sé mig knúna til að leiðrétta rangfærslur sem komu fram, sérstaklega í máli formanns velferðarnefndar. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um það hvar eigi að staðsetja nýja stjórnsýslustofnun. Það hefur verið skipuð nefnd með mjög hæfu og faglega völdu fólki sem er ætlað að koma fram með tillögur (Gripið fram í.) um höfuðstöðvar og starfsstöðvar nýrrar stofnunar.

Í þessu tilviki var það fulltrúi Samfylkingarinnar í þessari umræðu, hv. þm. Guðbjartur Hannesson. (GuðbH: … í sambandi við úrræðin.) Ég leiðrétti það hér með, ekki hefur verið tekin ákvörðun. Þegar ég skipa nefndir er ég ekki fyrir fram búin að ákveða hver niðurstaða þeirrar nefndar á að vera.

Síðan varðandi það að ég nálgist þetta af léttúð, það er alls ekki þannig. Við erum að tala um mjög mikilvægan málaflokk sem ég tel að við verðum að efla. Við erum ekki með þetta heildstæða þjónustuferli sem ég tel mjög mikilvægt að koma á. Við sinnum ekki börnunum okkar eins úti um allt land og við styðjum ekki við sveitarfélögin, þau sem bera ábyrgð á félagsþjónustu og barnavernd, með þeim hætti sem ég tel að við eigum að gera. Það er ástæðan fyrir því að ég tilkynnti fyrir þó nokkru síðan að ég hefði í hyggju að setja af stað þessa vinnu varðandi endurskoðun um samþættingu þátta sem snúa að framkvæmdaáætlun í barnavernd, samþætta þá við fjölskyldustefnuna, sem og að endurskoða stjórnsýsluna, finna hvernig ríkið getur stutt sem best við sveitarfélögin í að sinna félagsþjónustu og barnavernd.

Eins og þeir sem hafa kynnt sér fjárlögin vita höfum við hjá félags- og húsnæðismálaráðherra forgangsraðað (Forseti hringir.) í þágu þessa málaflokks. Við höfum verið að tryggja fjármagn til Barnahúss. Við erum (Forseti hringir.) núna að huga að fötluðum börnum sem munu koma inn í nýja framkvæmdaáætlun um málefni fatlaðs fólks og tryggja fjármagnið þar. (Forseti hringir.) Við höfum verið að breyta tímabundnum heimildum í varanlegar heimildir sem snúa að Barnahúsi og ég vil líka nefna sérstaklega (Forseti hringir.) aukna áherslu á samstarf lögreglu, félagsþjónustu og heilbrigðisþjónustu. (Forseti hringir.) Þar erum við meðal annars að nota þær 500 milljónir sem voru tryggðar hér (Forseti hringir.) og er komið varanlega inn í stofnun.

Ég þakka þér kærlega fyrir, forseti.