145. löggjafarþing — 23. fundur,  20. okt. 2015.

sjúkratryggingar og lyfjalög.

228. mál
[17:41]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka svarið en mér finnst þetta mjög óheppilegt, ekki síst í ljósi þess hversu mikil óvissa er um hversu mikið þetta verði notað. Ég kem svo í ræðu minni inn á frekari þætti. Við höldum að þetta verði ekki mikið notað en við vitum ekkert um það. Íslendingar ferðast mjög víða. Margir dveljast hluta úr ári annars staðar og ég velti fyrir mér til að hafa einhverja yfirsýn yfir þetta hvort ekki eigi að fara fram á fyrirframsamþykki. Þá þurfum við að hafa á hreinu hvaða rétt við veitum sjúklingum varðandi það hvað við teljum eðlileg tímamörk á biðlistum. Á meðan við treystum okkur ekki til að vera með almennar reglur um það hvað sé ásættanlegur biðtími finnst mér óeðlilegt að opna á þessa möguleika án þess að fyrir liggi samþykki. Ég spyr: Af hverju var ákveðið að hafa ekki fyrirframsamþykki þó að Noregur hafi ákveðið að gera það?