146. löggjafarþing — 23. fundur,  1. feb. 2017.

kjör öryrkja.

[16:07]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Það gleður mig að heyra að það eigi að fara í alvöruvinnu sem lýtur að framkvæmd á þeirri stefnu sem hér var samþykkt um geðheilbrigðismál og að settur verði sérstakur fókus á geðheilbrigðismál ungs fólks. Mér finnst það mjög mikilvægt og ég vonast til þess að í samvinnu við þingið verði unnin langtímastefnumótun, eins og ég hamra alltaf á, í þeim málaflokkum sem kalla eftir miklu samráði á milli flokka þannig að ekki sé verið að hræra í þessu milli kjörtímabila.

Í ljósi þess að nú erum við með við ríkisstjórnarborðið þrjá flokka sem eru frekar til hægri langar mig að brýna fyrir núverandi valdhöfum, þar á meðal hæstv. ráðherrum, að einfalda kerfin. Þessi flækja í kerfunum og hvað þau eru orðin umfangsmikil gerir það að verkum að allt of margir falla á milli. Það eykur í sjálfu sér vantraust á þessa stofnun sem og óöryggi hjá fólki sem þarf að nýta sér stuðning samfélagsins til að geta lifað mannsæmandi lífi. Þarna er um að ræða fólk sem þarf á sköttunum okkar að halda til að geta lifað með reisn þótt það lendi í skakkaföllum í lífinu og mörg okkar eru ánægð með að borga skatta til að standa undir því.

Orðið öryrki er ömurlegt orð. Það hefur vond áhrif að fá þetta orð yfir sig. Ég hef séð það bæði á nánum ættingjum og öðru fólki þannig ef við getum fundið leið til þess að breyta hugmyndinni um örorku, að við hættum líka að setja fólk í prósentur, ættum við að gera það en fyrst og fremst finnst mér svo mikilvægt að við hættum að (Forseti hringir.) hafa kerfi þar sem fólk er latt til þess að geta verið virkt í samfélaginu. Þess vegna eru Píratar alfarið á móti krónu á móti krónu skerðingum í öllum málaflokkum sem lúta að öryrkjum og eldri borgurum.