149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

skógar og skógrækt.

231. mál
[21:57]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil í upphafi lýsa yfir mikilli ánægju minni með þetta frumvarp til laga um skógrækt. Það var kominn tími til. Gildandi lög eru frá 1955 og síðan þá er auðvitað umhverfi skógræktar mikið breytt. Það eru ár og öld síðan þetta var. Þá þótti það frétt til næsta bæjar ef það voru nokkur tré saman. Þegar ég var í sveit í upphafi 8. áratugar síðustu aldar var í Vegahandbókinni sérstaklega getið um þann bæ sem ég var á, að þar væri vöxtulegur trjágarður. Svo þegar ég leit á þennan trjágarð seinna meir þá eru þarna kannski 20 tré saman komin fyrir aftan húsið, en það var tilefni til að geta þess í Vegahandbókinni.

En spurning mín lýtur ekki að þessu heldur að 23. gr. frumvarpsins þar sem Skógræktinni er gefin heimild til að leggja á stjórnvaldssektir á einstakling eða lögaðila sem brýtur gegn ákvæði 18. gr., þar sem kemur fram að við fellingu skóga þurfi leyfi til þess frá Skógræktinni.

Það hefur alltaf farið í taugarnar á mér þegar menn vilja vera lögreglur, þegar stofnunum er veitt lögregluvald til að leggja á sektir og framkvæma alls konar hluti sem eiga auðvitað að vera undir lögreglunni. Ef einhver brýtur gegn lagaákvæðum þá á auðvitað að kæra til lögreglu. Lögreglan á að bjóða sekt sem tekur ekki langan tíma og er ekki flókið ferli, en ef menn fallast ekki á það þá er ákært fyrir dómstólum þannig að menn fá réttláta meðferð þar. Hún er mjög skjótvirk oft á tíðum, sektarmeðferðin. Ég spyr ráðherra: Er nauðsynlegt sí og æ, og líka í þessu frumvarpi, að veita stofnunum úti í bæ svona sektarheimild?