150. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2019.

fullgilding heildarsamnings um efnahagslega samvinnu milli EFTA-ríkjanna og Indónesíu.

275. mál
[15:19]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það er alveg rétt sem kom fram hjá hv. þingmanni, þó að fjarlægðin á milli landanna sé löng eru miklir möguleikar á samvinnu. Hv. þingmaður vísaði sérstaklega til möguleikanna á sviði jarðvarma og þar höfum við af reynslu að miðla sem nýtist viðkomandi löndum mjög vel, ekki bara til að hafa aðgang að góðri og stöðugri orku heldur ekki síst í baráttu heimsins gegn loftslagsvánni. Þetta er eitt af þeim löndum sem við höfum litið sérstaklega til þegar kemur að því og við höfum unnið að því að efla tengslin.

Hv. þingmaður nefndi hörð viðskipti og ég held að það sé vanmetið — viðskipti eru ekki bara að menn skiptist á vörum og peningum annars vegar og þjónustu og peningum hins vegar. Viðskipti þýða að fólk kynnist, skilur hvert annað betur og ræktar tengsl sem oftar en ekki, og kannski oftast, leiða góða hluti af sér.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir innleggið, ég er sammála því og það er gott að vita af stuðningi hv. þingmanns við þetta mál.