150. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2019.

þjóðarsjóður.

243. mál
[17:08]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Ég er eindreginn stuðningsmaður aukinnar ábyrgðar og ráðdeildar í rekstri ríkissjóðs. Raunar hef ég á þessu kjörtímabili verið nokkuð gagnrýninn á ríkisstjórnina fyrir þá botnlausu útgjaldaþenslu sem hún hefur stundað og er þar að slá heldur vafasamt Íslandsmet í útgjaldaaukningu ríkissjóðs á ekki lengri tíma en þetta. Þess vegna ætti þetta mál kannski að vera fagnaðarefni því að þarna væri ríkisstjórnin loksins að leggja til hliðar einhverja peninga sem hún gæti ekki eytt jafnharðan, en mér er það hins vegar nokkur spurn. Í fyrsta lagi má velta fyrir sér tæknilegum atriðum. Í anda eyðslustefnu þessarar ríkisstjórnar skal skorið við nögl í framlagi til sjóðsins fyrstu árin svo að stjórnin geti eytt aðeins meira af því fjármagni sem þarna er um að ræða. Í grundvallaratriðum velti ég hins vegar fyrst og fremst fyrir mér hvort tilefni sé til slíks þjóðarsjóðs, þegar við horfum til annarra slíkra, og hvort hann sé tímabær í það minnsta jafnvel þótt það væri tilefni.

Mig langar að nefna þrennt. Þegar við horfum til nágrannaríkja okkar sem hafa gripið til þessa úrræðis, sem getur verið mjög skynsamlegt í mörgum tilfellum, höfum við séð að þeir þjóðarsjóðir standa gjarnan til tryggingar á ófjármögnuðum lífeyrisskuldbindingum, þar sem er gegnumstreymiskerfi í stað söfnunarkerfis, eða þar sem um er að ræða fjármögnun á gjaldeyrisvaraforða viðkomandi ríkis og síðan getur verið um að ræða sjóðsöfnun vegna nýtingar á ósjálfbærum auðlindum, t.d. norski olíusjóðurinn. Þetta virðast vera þrjú megineinkenni þjóðarsjóða sem slíkra. Þá er áhugavert að hafa í huga að við erum í fyrsta lagi með fjármagnað lífeyriskerfi að stærstum hluta sem byggir á sjóðsöfnun, ekki gegnumstreymiskerfi af hálfu ríkisins. Í öðru lagi erum við með tekjur okkar af auðlindanýtingu fyrst og fremst grundvallaðar á sjálfbærum, endurnýjanlegum auðlindum, þar af leiðandi er ekkert sem bendir til þess að tekjur vegna nýtingar þeirra þverri neitt á komandi árum eða áratugum. Í þriðja lagi erum við með mjög stóran, jafnvel of stóran, gjaldeyrisvaraforða sem tekist hefur að safna upp á undanförnum árum. Á alla þessa þrjá mælikvarða er staða okkar mjög traust.

Þess vegna staldra ég aðeins við þessi áform af því að þó að margt sé þarna gott að finna varðandi áherslur sjóðsins, fjárfestingarstefnu o.s.frv. þá kostar utanumhald sjóðs sem þessa alltaf nokkuð. Gera má ráð fyrir að umsýslukostnaður hans verði allnokkur og einhver stofnanakostnaður, stjórn og annað þess háttar, sem þarf að fjármagna. Þá liggur beinast við að spyrja, af því að á sama tíma og hér er verið að tala um sjóð sem gæti orðið miðað við áform frumvarpsins 250–300 milljarðar kr. að stærð erum við með ófjármagnaða eða neikvæða tryggingafræðilega stöðu á B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, sem er að fullu á ábyrgð hins opinbera, upp á 700 milljarða kr. Ef við horfum bara til þeirrar einföldu staðreyndar að sú tryggingafræðilega staða er núvirt miðað við 3,5% raunávöxtunarkröfu á ári þá mætti í raun segja að ríkissjóður hefði 6–7% nafnávöxtun á ári af því að greiða þá neikvæðu stöðu hraðar niður en er gert í dag. Þegar horft er til, ef ég man þær stærðir rétt, núverandi innstreymis, viðbótarinnstreymis til B-deildar, nemur það 7–10 milljörðum á ári. Hægt væri að tvöfalda það framlag með því að láta það fjármagn sem hér er gert ráð fyrir að renni til þjóðarsjóðs renna til hraðari niðurgreiðslu þessarar skuldbindingar gegn ágætlega ásættanlegri ávöxtun fyrir ríkissjóð. Það væri verulegur sparnaður sem í því fælist fyrir komandi kynslóðir án þess að ríkið hefði af því nokkurn viðbótarkostnað því að innan LSR er öll fagþekking, allur strúktúr sem þarf til ávöxtunar á fé. Ríkissjóður er þá bara að nýta þann sjóð sem hann þegar rekur í dag, sem heitir Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, með framlögum annars vegar inn í A-deild, eins og hefðbundnir lífeyrissjóðir eru reknir, og hins vegar með beinni ábyrgð sinni á neikvæðri tryggingafræðilegri stöðu B-deildar sjóðsins sem væri þá hægt að nýta þetta framlag til að greiða talsvert hraðar niður en nú er gert ráð fyrir.

Það má segja að við séum að varpa þeim kostnaði, þ.e. vanfjármögnun B-deildarinnar, yfir á komandi kynslóðir með því að hafa ekki greitt hraðar inn á þá skuldbindingu en raun ber vitni. Þó svo að til grundvallar liggi á hverjum tíma mat á því hver fjárþörf B-deildarinnar sé sýnist mér þetta vera eitt besta fjárfestingartækifæri ríkissjóðs í dag, að greiða þá skuldbindingu hraðar niður, og alger óþarfi þar af leiðandi, alla vega á þessum tímapunkti, að stofna til sérstaks þjóðarsjóðs á meðan slík tækifæri standa okkur til boða.

Það má benda á því til viðbótar að hér er talað um sjóðinn sem einhvers konar stóráfallasjóð en á sama tíma er útgreiðsluskilyrði hans að tekjutap ríkissjóðs sé um 5% af meðaltekjum síðustu þriggja rekstrarára. Í nefndaráliti sem ég ritaði undir um málið sl. vor sýndi ég m.a. mynd sem sýnir að slíkir viðburðir eru æðitíðir í íslenskri hagsögu. Í raun og veru væri nokkuð oft hægt að grípa til útborgunar úr þessum sjóði sem hefði ekkert með stór áföll að gera í íslensku hagkerfi heldur aðeins dæmigerða íslenska hagsveiflu. Það má því velta fyrir sér hvort útgreiðsluheimildin eða -skilyrðin séu allt of rúm hvað þetta varðar.

Megingagnrýni mín er í raun og veru að ríkissjóður eigi umtalsvert betri tækifæri einfaldlega með því að greiða niður neikvæða tryggingafræðilega stöðu B-deildar LSR hraðar en gert er ráð fyrir í dag. Má segja að undir megininntak þessarar gagnrýni hafi bæði Viðskiptaráð og Alþýðusambandið tekið og talið ótímabært að stofna til þjóðarsjóðs sem þessa við núverandi kringumstæður.

Ég ætla ekki að hafa mál mitt lengra. Þetta er efnislega sama gagnrýni og ég hef áður sett fram á stofnun eða tilurð slíks sjóðs á þessum tímapunkti. Mér sýnist málið tiltölulega lítið breytt í öllum meginatriðum frá síðasta þingi en hlakka til að taka það til umfjöllunar í efnahags- og viðskiptanefnd.