150. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2019.

þjóðarsjóður.

243. mál
[17:23]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Forseti. Ég hygg að ég og hæstv. ráðherra séum alveg sammála um að það er mikilvægt að nýta svigrúmið sem er mögulega að skapast í ríkisfjármálunum. Við verðum reyndar að hafa í huga að við erum með fjármálastefnu sem gerir jafnvel ráð fyrir halla af rekstri ríkissjóðs á næstu tveimur árum eða svo, meðan við erum að fara í gegnum þá aðlögun sem er í hagkerfinu núna, en auðvitað er brýnt að til lengri tíma litið, þegar tekjur af þessum fyrirtækjum í auðlindanýtingu fara vaxandi, sé þeim ráðstafað með einhverjum svona hætti. Þær fari ekki beint í að belgja enn frekar út rekstur ríkisins en verði heldur nýttar með ráðdeild í huga. Þar hef ég fyrst og fremst bent á það, með mjög praktískum, einföldum samanburði, að til skemmri tíma litið í það minnsta sé mun hagkvæmara að greiða hraðar niður skuldbindingar B-deildar LSR með sinni 6–7% nafnávöxtun, ég tala nú ekki um í umhverfinu í dag. Það er rétt að hafa í huga að þetta er 3,5% raunávöxtunarkostnaður fyrir ríkissjóð á sama tíma og ríkissjóður er að fjármagna sig kannski á 2% raunvöxtum eða jafnvel minna. Þetta er talsvert mikill fjármagnskostnaður fyrir ríkisstjórn og þar af leiðandi rakið tækifæri að beina þunga skulda- eða skuldbindinganiðurgreiðslu yfir í lífeyrisskuldbindingarnar í stað þess að ganga mikið lengra í niðurgreiðslu ríkisskuldanna sjálfra. Þar eru, eins og réttilega hefur verið bent á, í það minnsta einhver neðri mörk sem skynsamlegt er að miða við, ríkissjóður sé ekki skuldlaus með öllu, m.a. til þess að halda úti skilvirkum verðbréfamarkaði. Þetta er í raun og veru megingagnrýni mín. Ég teldi einfaldlega betur með peningana farið að borga hraðar niður skuldbindingar B-deildarinnar en að fara að stofna nýja ríkisstofnun um rekstur þjóðarsjóðs.