150. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2019.

íslenskur ríkisborgararéttur.

252. mál
[18:52]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Þetta er þannig í dag að maður getur verið erlendis í þrjá mánuði samfleytt. Nú er í raun verið að lengja heimildina. Það er auðvitað markmið laganna að horfa til þeirra breyttu þjóðfélagshátta að fólk ferðast meira. Það fer til annarra landa vegna ýmissa mála. Eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu getur undir dvöl erlendis einnig heyrt dvöl vegna atvinnu maka eða forsjárforeldris sem gegnir störfum erlendis á vegum íslenska ríkisins eða er starfsmaður alþjóðastofnunar. Það er tekið mið af 10. gr. laga um lögheimili og aðsetur. Undanþágur miðast við hámarksheimild til dvalar erlendis en það er t.d. ekki heimilt að dvelja meira en tvö ár erlendis vegna atvinnu og þrjú ár vegna náms. Það er heimilt hér að dvelja í tvö ár erlendis vegna atvinnu og þrjú ár vegna náms og dvöl í allt að 90 daga á 12 mánaða tímabili telst ekki til undantekningartilvika. Yfir þetta er farið í einstökum greinum frumvarpsins, um 1. gr., og ég tel að þessar breytingar séu af hinu góða og mæti breyttum áherslum í ýmsum atriðum. Að öðru leyti þakka ég fyrir umræðuna.