151. löggjafarþing — 23. fundur,  19. nóv. 2020.

listamannalaun.

310. mál
[14:49]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir mjög góðar umræður og mig langaði aðeins að fara yfir nokkra þætti sem hv. þingmenn hafa rætt hér. Ég sakna þess þó að hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson sé ekki hér í þingsal til að fara yfir þær aðgerðir sem við höfum verið að vinna að, ríkisstjórnin, af því að þær eru mjög umfangsmiklar. Hv. þingmaður nefnir það iðulega að hann hefði viljað sjá að listamannalaunin hefðu farið upp í 6,5 milljarða kr. Ég vil benda honum á, án þess þó að ég vilji fara í einhverja samkeppni um tölur hér, að tekjufallsstyrkirnir okkar sem eru áætlaðir inn í menningunna og listalífið eru metnir á 9 milljarða kr. Við erum því að ná mjög vel utan um þessa stöðu þó að hún sé mjög viðkvæm. Það kann að vera að við þurfum að horfa til annarra aðgerða þegar fram líða stundir en það er óljóst á þessum tíma.

Ég vil líka benda hv. þingmanni á að þær aðgerðir sem hæstv. forsætisráðherra og ég kynntum fyrir rúmum mánuði eru í tíu liðum. Í fyrsta lagi eru það aðgerðir sem tengjast afkomuöryggi. Það eru fjórar aðgerðir. Það er í fyrsta lagi tekjufallsstyrkurinn. Í öðru lagi erum við að auka einstaklingsbundna aðstoð fyrir þá sem eru í þessum geira vegna þess að ekki bara á Íslandi heldur víða annars staðar í Evrópu hafa aðilar sem hafa verið sjálfstætt starfandi ekki fallið undir þessi hefðbundnu kerfi, við framlengjum hlutabótaleiðina sem hefur nýst mörgum og svo jukum við verulega listamannalaunin strax í upphafi faraldursins og aukningin nemur um 38%. Næst kynntum við markaðsaðgerðir og þar erum við að skoða hvernig við getum komið menningunni betur á framfæri þrátt fyrir samkomubann. Sú vinna hefur verið sett af stað og þær niðurstöður eru mjög athyglisverðar. Við ætlum að nýta betur tæknina, streymisveitur og annað slíkt, og ég er mjög vongóð um að þá getum við miðlað menningunni inn í veturinn. Eitt dæmi um það sem við höfum verið að gera er til að mynda stuðningur við Iceland Airwaves tónlistarhátíðina sem var haldin um síðustu helgi. Einnig erum við að fara í langtímaumbætur, að skoða hvernig við getum styrkt alla umgjörðina í kringum listafólkið okkar. Að lokum vil ég nefna að við erum að ráðast í að setja á laggirnar sviðslistamiðstöð og vinnuhópur verður settur af stað með það að markmiði að setja upp tónlistarmiðstöð. Alls eru þetta tíu aðgerðir þegar við erum búin að taka þetta allt saman og get ég ekki betur séð en Ísland sé það ríki sem styður einna best við menningu og íþróttir á Norðurlöndunum. Ég vil taka fram að verið er að vinna að aðgerðum varðandi íþróttirnar akkúrat núna.

Hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson nefndi einnig kvikmyndaiðnaðinn og ég saknaði svolítið í máli hans að við kynntum mjög metnaðarfulla kvikmyndastefnu í haust. Þar eru líka aðgerðir í tíu liðum og það er tvennt sem mig langaði að nefna sérstaklega þar. Það er annars vegar að framlög til Kvikmyndasjóðs eru að aukast og svo ákvað ríkisstjórnin að setja á laggirnar nýjan fjárfestingarsjóð sjónvarpsefnis sem hefur verið baráttumál þeirra sem starfa við kvikmyndir og sjónvarpsþáttagerð. Við erum að setja þar yfir hálfan milljarð í tengslum við fjárfestingarátakið. Þetta eru tíu aðgerðir og ég ætla ekki að fara yfir þær allar hér. — Það er ánægjulegt að sjá hv. þingmann aftur hér þar sem ég er búinn að halda mjög umfangsmikla ræðu um allar þær aðgerðir sem við erum að fara í. — Ég vil nefna þróun kvikmyndaklasans. Einnig höfum við verið að vinna að hagvísum og hvernig við ætlum að efla alla kynningu á alþjóðavettvangi. Mig langar líka að nefna að komið hefur fram í ræðum þingmanna að þeir hafi áhyggjur af því að viðhorf til listamannalauna gæti verið betra. Ég get glatt hv. þingmenn með því að viðhorf til listamannalauna og þeirra sem njóta þeirra hefur verið að batna. Íslenska samfélagið er orðið mun jákvæðara en það var gagnvart listamannalaunum og mér finnst það frábær þróun og löngu tímabær. Stundum taka svona hlutir ákveðinn tíma og ég held að við séum alltaf að verða meðvitaðri um að listir skipta okkur máli á hverjum einasta degi, ekki bara á hátíðarstundum heldur á hverjum einasta degi.

Hv. þm. Björn Leví Gunnarsson kom inn á þá ákvörðun suður-kóreskra stjórnvalda að gera menningarlífið að útflutningsvöru. Ég get glatt hv. þingmann með því að ég uppgötvaði „K-pop“ fyrir 25 árum þegar ég var nemandi í Suður-Kóreu. Þá var þetta alveg feikilega vinsælt. Ég get ekki sagt að ég hefði séð það fyrir að þetta yrði þessi risaútflutningsvara en það hefur gerst. Ég er sammála hv. þingmanni um að það var tekin ákvörðun um þetta, þau stóðu við þá ákvörðun og styrktu alla umgjörð í kringum listsköpun í landinu. Það kemur ekki á óvart, þekkjandi menningarlíf í Suður-Kóreu, að þetta hafi verið vel heppnað hjá þeim. Það sama má segja þegar þeir tóku ákvörðun um að þeir ætluðu að vera fremstir í flokki varðandi hátækni. Það var ákvörðun tekin af stjórnvöldum sem var studd af atvinnulífinu, var samspil atvinnulífs og stjórnvalda. Margt hefur tekist frábærlega hjá þeim, annað ekki eins vel af því að þá skortir kannski meiri fjölbreytileika varðandi lítil og meðalstór fyrirtæki. En ég hef alltaf haft gaman af því að líta til austurs af því þeir eru býsna góðir í þessu.

Að lokum þakka ég fyrir mjög góðar umræður. Þingheimur er mikið sammála um að við séum að taka réttar ákvarðanir með því að leggja þetta frumvarp fram. Við höfum ekki aðeins verið að leggja fram frumvarp heldur höfum við gripið til mjög umfangsmikilla og áhrifaríkra aðgerða í þágu listalífsins. Ég er sammála þeim þingmönnum sem hafa tekið til máls um að það hafi verið löngu tímabært að ráðast í þessar aðgerðir. Þetta er mjög góð og umfangsmikil fjárfesting og arðbær til langrar framtíðar.