151. löggjafarþing — 23. fundur,  19. nóv. 2020.

skattar og gjöld.

314. mál
[16:06]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér með fyrir frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld. Í frumvarpinu er m.a. lögð til tímabundin lækkun á tryggingagjaldi auk nauðsynlegra leiðréttinga og annarra breytinga á ýmsum lögum um skatta og gjöld. Einnig er um að ræða undanþágu ökutækja sem knúin eru metani, metanóli, rafmagni eða vetni til vöruflutninga frá vörugjaldi og greiðslu á lágmarksbifreiðagjaldi í tilfelli rafmagns- og vetnisbifreiða og fleira. Ég mun nú fjalla um helstu atriði frumvarpsins.

1. Tímabundin lækkun tryggingagjalds: Í frumvarpinu er lagt til að almenna tryggingagjaldið verði lækkað tímabundið í eitt ár, eða í staðgreiðslu á árinu 2021 og við álagningu opinberra gjalda á árinu 2022 vegna tekna ársins 2021, úr 4,90% í 4,65%. Tilgangur lækkunarinnar er að milda áhrif af þeim launahækkunum sem samið var um í lífskjarasamningunum og mun lækkun tryggingagjalds jafngilda því að gjaldið verði ekki lagt á stofn sem nemur kjarasamningsbundnum launahækkunum sem koma til framkvæmda nú um áramót. Heildartekjur af tryggingagjaldi munu dragast saman um 4 milljarða kr. sökum lækkunarinnar. Þar af lækka greiðslur ríkisins um 0,9 milljarða kr. og munu nettótekjuáhrif á ríkissjóð því verða 3,1 milljarður kr. til lækkunar. Jafnframt mun þessi aðgerð lækka útgjöld sveitarfélaga um 0,5 milljarða kr. á næsta ári.

2. Breyting á skattfrelsi meðlaga og framfærslulífeyris til maka: Í lögum um tekjuskatt er fjallað um meðlög og framfærslulífeyri til maka eða fyrrverandi maka þar sem skattfrelsi teknanna takmarkast við sömu fjárhæð og lágmarksellilífeyrir, eða grunnlífeyrir. Á þeim tíma sem undanþágan var sett var fjárhæðarviðmiðið hið sama hjá ellilífeyrisþegum og örorkulífeyrisþegum. Samsetning ellilífeyris hefur tekið breytingum og er því lagt til að stuðst verði við fjárhæðarmörk örorkulífeyris þess í stað svo að haldið verði upphaflegu viðmiði. Það sem við töluðum áður um sem grunnlífeyri hefur í raun verið sameinað öðrum bótaflokkum í almannatryggingakerfi ellilífeyris.

3. Kaup á hlutabréfum samkvæmt kauprétti: Þá er lagt til að fjárhæð sú, sem er að finna í tekjuskattslögum og er eitt af fleiri skilyrðum sem þarf að uppfylla til að kaupréttur starfsmanns skattleggist sem fjármagnstekjur en ekki launatekjur, hækki úr 600.000 kr. í 1.500.000 kr. Verði frumvarpið að lögum má hámark kaupréttar hvers starfsmanns því ekki vera hærra en 1.500.000 kr. á ári að kaupverði. Ekki er gert ráð fyrir því að breytingin hafi mikil áhrif á ríkissjóð verði hún að lögum. Hér er um að ræða fjárhæðarviðmið sem hefur staðið óbreytt í lögum í rétt u.þ.b. 20 ár í krónutölu.

4. Skipting söluverðs sérgreindra fasteigna eða mannvirkja, ásamt lóð, landi eða réttindum tengdum þessum eignum: Í lögum um tekjuskatt er mælt fyrir um að þegar fasteignir og land eru seld í einu lagi skuli skipta söluverðinu í sama hlutfalli og hinar seldu eignir eru metnar til fasteignamats á söludegi. Í þeim tilfellum þar sem fasteignamat endurspeglar ekki þau markaðsverðmæti sem búa að baki viðskiptum er lagt til að þegar skipting söluverðs, í sama hlutfalli og hinar seldu eignir eru metnar til fasteignamats. Við erum að ræða um þau tilfelli þar sem fasteignamat endurspeglar ekki þau markaðsverðmæti sem búa að baki viðskiptum. Þar er lagt til að þegar skipting söluverðs í sama hlutfalli og hinnar seldu eignir eru metnar til fasteignamats leiðir til verulega óeðlilegrar niðurstöðu, sem ekki endurspeglar markaðsverð hinna seldu eigna, skuli miða við markaðsverð þeirra á söludegi í stað fasteignamats.

Sem dæmi má taka land með íbúðarhúsnæði sem selt er á 100 millj. kr. Fasteignamat íbúðarhúsnæðis er 90 millj. kr. en landið er metið á 10 millj. kr. Skipting söluverðs yrði þá þannig að 90 milljónir teldust tilheyra íbúðarhúsnæðinu og væru þar með skattfrjálsar en einungis 10 milljónir teldust til stofns skattskylds söluhagnaðar vegna sölu lands, jafnvel þó að landakaupin hefðu verið meginforsenda hins háa söluverðs.

5. Skattfrelsi styrkja í formi niðurgreiðslu frá ríkinu: Lagt er til í frumvarpinu að kveðið verði á um að styrkur fyrir einstaklinga með búsetu utan höfuðborgarsvæðisins í formi niðurgreiðslu vegna greiðsluþátttöku ríkisins í fargjöldum innan lands teljist ekki til tekna. Að uppfylltum skilyrðum ákvæðisins er því ætlað að taka til fargjalda vegna hvers kyns samgangna innan lands, hvort heldur sem er í lofti, á landi eða sjó.

6. Útleiga manna á íbúðarhúsnæði: Í tekjuskattslögum er mælt fyrir um að tekjur einstaklings af útleigu íbúðarhúsnæðis til varanlegrar búsetu leigjanda teljist utan atvinnurekstrar eða sjálfstæðrar starfsemi ef ekki eru leigðar út fleiri en tvær sérgreindar fasteignir í eigu viðkomandi. Ljóst er við lestur greinargerðar í frumvarpi því er varð að lögum um breytingu á ýmsum lagaákvæðum um skatta, tolla og gjöld, að með sérgreindum fasteignum er átt við sérgreindar íbúðir. Lögð er til lagfæring á orðalagi til að taka af öll tvímæli um annað.

7. Reglur og ákvarðanir ríkisskattstjóra: Í lögum um tekjuskatt er kveðið á um að ríkisskattstjóri skuli setja framkvæmdar- og starfsreglur ásamt leiðbeiningum og verklagsreglum. Þá skuli ríkisskattstjóri enn fremur birta reglur og ákvarðanir sem hann metur að hafi þýðingu fyrir skattaðila og eftir atvikum gefa út og hafa til sölu. Lagt er til að við ákvæðið verði aukið að ríkisskattstjóra sé jafnframt heimilt að gefa út og hafa til sölu fyrir almenning yfirlit yfir skatta, tolla og gjöld á sviði ríkisskattstjóra eða láta í té sérþjónustu samkvæmt gjaldskrá sem staðfest skal af ráðherra og birt í B-deild Stjórnartíðinda.

8. Álagningarskrár, skattskrár og virðisaukaskattsskrár: Í ljósi þess að heimsfaraldur kórónuveiru geisar enn og að við framlagningu álagningarskrár skattaðila gerir fjöldi manns sér ferð í afgreiðslu Skattsins um land allt er lagt til að ákvæði til bráðabirgða við lög um tekjuskatt, þess efnis að þrátt fyrir ákvæði laganna væri Skattinum ekki skylt að leggja fram álagningarskrá fyrir hvert sveitarfélag að lokinni álagningu skattaðila á árinu 2020 vegna tekna ársins 2019, verði framlengt um eitt ár og að eftir atvikum gildi hið sama um framlagningu skattskráa á árinu 2020 og 2021. Mikilvægt er að tryggja að embætti ríkisskattstjóra geti uppfyllt lögbundnar skyldur sínar en þó tekið tillit til reglna um takmarkanir á samkomum sem og gætt að almennum sóttvarnasjónarmiðum. Þá er jafnframt lagt til að sambærilegu ákvæði til bráðabirgða verði bætt við lög um virðisaukaskatt þess efnis að þrátt fyrir ákvæði laganna sé ríkisskattstjóra ekki skylt á árunum 2020 og 2021 að leggja fram virðisaukaskattsskrár.

9. Breytingar á lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur: Lögð er til sú breyting á lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur að í stað þess að kveða á um ár, þegar rætt er um samspil útreiknings á álagi og eindaga, verði kveðið á um greiðslutímabil. Er það gert í ljósi breytinga sem orðið hafa á greiðslutímabilum úr almanaksárinu í fjögur þriggja mánaða greiðslutímabil.

Þá er lagt til að ákvæði til bráðabirgða III, við lög um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, falli brott enda hefur hlutfalli staðgreiðslu verið breytt frá gildistöku þess, fyrst í 18%, síðan 20% og er nú 22%. Í ákvæðinu er kveðið á um að frá og með 1. júlí 2009 skuli skilaskyldum aðilum skylt að halda eftir 15% skatti af staðgreiðsluskyldum fjármagnstekjum skattskyldra aðila sem til falla eftir 1. júlí 2009 af eldri kröfum, sem og kröfum sem stofnað er til eftir það.

10. Undanþága ökutækja frá vörugjaldi: Lögð er til breyting á lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. sem felur í sér rýmkun þess efnis að undanþága frá vörugjaldi nái einnig til annarra tegunda ökutækja til vöruflutninga í atvinnuskyni sem knúin eru metani, metanóli, rafmagni eða vetni að öllu leyti. Með tillögunni sem lögð er fram í frumvarpinu er lagt til að ekki sé gerður greinarmunur á gerð svokallaðra nýorkuökutækja sem knúin eru metani, metanóli, rafmagni eða vetni til vöruflutninga í atvinnuskyni en slíkt verður að teljast eðlilegt, m.a. út frá markmiðum stjórnvalda í orkuskiptum og loftslagsmálum.

11. Greiðsla á lágmarki bifreiðagjalds vegna þungra hreinorkuökutækja: Í ljósi markmiða stjórnvalda um orkuskipti í samgöngu- og loftslagsmálum er lagt til að kveðið verði á um greiðslu lágmarks bifreiðagjalds hjá hreinorkuökutækjum sem ganga alfarið fyrir metani, metanóli, rafmagni eða vetni og eru 3.500 kg eða þyngri.

12. Vörugjald af húsbílum: Lögð er til framlenging á tímabundinni lækkun á skráðri losun húsbíla um 40% að ákveðnum skilyrðum uppfylltum til og með 31. desember 2021 þar sem unnið er að endanlegri lausn í málaflokknum.

13. Gjaldtökuheimild vegna löggildingar iðnmeistara og hönnuða í lög um aukatekjur ríkissjóðs: Að lokum er, samræmis vegna, lagt til að gjaldtaka vegna löggildingar iðnmeistara og hönnuða á sviði byggingarmála byggist á lögum um aukatekjur ríkissjóðs eins og á við vegna löggildingar rafverktaka. Ekki er verið að leggja til nýjar gjaldtökuheimildir heldur einungis lagt til að flytja þær á einn stað í lögum um aukatekjur ríkissjóðs. Breytingin mun fela í sér að þessar rekstrartekjur falla niður hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun sem fær þess í stað framlag úr ríkissjóði á móti. Allar aðrar breytingar á rekstrartekjum og útgjöldum eftir það fara í gegnum hefðbundið fjárlaga- og áætlanagerðarferli. Ekki hefur verið gert ráð fyrir þessu í fjárlagafrumvarpinu en verði ákvæðið að lögum verður hægt að gera breytingar við 2. umr. út frá gildistöku um áramótin.

Virðulegi forseti. Tillögur frumvarpsins eru af margvíslegum toga og sama má segja um mat á áhrifum þeirra. Lækkun tryggingagjalds mun jafngilda því að gjaldið verði ekki lagt á þann hluta gjaldstofns sem nemur kjarasamningsbundnum launahækkunum sem koma til framkvæmda um komandi áramót líkt og fram kom hér að framan. Heildartekjur af tryggingagjaldi munu dragast saman um 4 milljarða kr. sökum lækkunarinnar. Þar af lækka greiðslur ríkisins um 0,9 milljarða kr. og munu nettótekjuáhrif á ríkissjóð því verða 3,1 milljarður kr. til lækkunar. Jafnframt mun þessi aðgerð lækka útgjöld sveitarfélaga um 0,5 milljarða kr. á næsta ári. Verði breytingartillagan að lögum mun hún hafa jákvæð áhrif á atvinnurekendur.

Aðrar breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu munu samanlagt ekki hafa teljandi áhrif á afkomu ríkissjóðs, einstaklinga og lögaðila verði frumvarpið óbreytt að lögum. Um er að ræða nauðsynlegar leiðréttingar og aðrar breytingar sem munu hins vegar leiða til þess að viðkomandi löggjöf á sviði skattamála verði skýrari.

Virðulegi forseti, Að þessu sögðu legg ég til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.