152. löggjafarþing — 23. fundur,  18. jan. 2022.

almannavarnir.

181. mál
[16:43]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar að lesa upp úr umsögn BSRB við frumvarp um borgaralega skyldu frá því fyrir ári, með leyfi forseta:

„Fljótlega eftir gildistöku laganna fór BSRB að berast mál þar sem starfsmenn höfðu verið færðir úr sínum hefðbundnu störfum og gert að sinna ýmsu viðhaldi á vinnustað sínum, svo sem málningarvinnu eða öðrum slíkum störfum. Á framangreindum vinnustöðum var engin neyð fyrir hendi, heldur verkefnin einfaldlega færri en vanalega vegna lokunar sundlauga eða íþróttamannvirkja. Við þetta hefur BSRB gert athugasemdir, enda felur umrætt bráðabirgðaákvæði eingöngu í sér skilyrta heimild til viðbragða þegar nauðsyn krefst þess að starfsmaður sinni störfum í þágu almannavarna á hættustundu.“

Þetta hefði náttúrlega mátt skoða miklu betur hjá ráðuneytinu, heyri ég á ráðherranum, og er vonandi eitthvað sem allsherjar- og menntamálanefnd tekur til rækilegrar skoðunar. Þau dæmi sem BSRB nefnir eru ekki það sem ég myndi halda að félli undir borgaralega skyldu heldur einfaldlega sveitarfélaga að bregðast við því að fá ekki styrki vegna tekjufalls eða lokunarstyrki. Ef sveitarfélag rekur tíu sundlaugar og þeim er lokað þá situr það uppi með þann launakostnað. Þá er auðvitað freistandi að nota starfskraftinn sem annars sæti auðum höndum í sundlauginni í eitthvað annað, í því ljósi að ríkið hleypur ekki undir bagga varðandi launakostnað eins og ef veitingastaður myndi þurfa að loka vegna sóttvarnaráðstafana. Þetta er hins vegar ekki tilgangur borgaralegrar skyldu á hættutímum og þess vegna eitthvað sem þarf að skoða mjög vandlega í umfjöllun nefndarinnar.