153. löggjafarþing — 23. fundur,  26. okt. 2022.

brottvísun flóttamanna.

[15:29]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Herra forseti. Í niðurstöðu héraðsdóms í máli sem dómur var kveðinn upp í fyrir stuttu var komist að þeirri niðurstöðu að framkvæmd lögreglu á þvinguðum Covid-prófum væri ekki með þeim hætti að hægt væri að kenna einstaklingnum um tafirnar þar sem það þótti ekki skýrt að viðkomandi hefði neitað að taka Covid-próf. Lögreglan mætir á staðinn með eitthvert eyðublað á íslensku sem fólk skilur ekki, því er neitað um lögmann, neitað um túlk. Það er ekkert sem bendir til þess að fólk hafi yfir höfuð skilið hvað væri í gangi. Því var skipað að exa við já eða nei. Og á þessu byggðu íslensk stjórnvöld. Þetta var fellt úr gildi. Það liggur ekkert fyrir um að neinn hafi neitað því að taka Covid-próf í fyrsta lagi. Í öðru lagi vil ég benda á að með þeirri breytingu sem hæstv. dómsmálaráðherra vísar í og er að leggja til í því frumvarpi sem við vorum að ræða í gær og höldum áfram með á morgun mun svona málum fjölga vegna þess að hann ætlar sér að fella úr gildi þá reglu sem hefði gert það að verkum að þessi maður og fleiri hefðu fengið niðurstöðu í máli sínu fyrir ári síðan.