132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Útgáfa talnaefnis um umhverfismál.

263. mál
[12:58]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra svörin. Það er gott til þess að vita að við skulum fá uppfærðar ákveðnar upplýsingar strax á næsta ári frá Hagstofunni í þessum efnum og sömuleiðis er ágætt til þess að vita að hæstv. ráðherra hefur staðfest sjónarmið mín, að hér sé þörf á ákveðnum úrbótum og við þurfum að halda vöku okkar og þróa áfram aðferðir, sem við erum reyndar byrjuð að þróa, við það að setja upplýsingar um umhverfismál í tölum í samhengi við aðra hluti, t.d. efnahagslega þætti.

Það er líka mjög mikilvægt að ríkisstjórnin líti til eigin stefnu í málefnum sjálfbærrar þróunar og þar sem fram undan er umhverfisþing, sem á að fjalla sérstaklega um sjálfbæra þróun, er ekki úr vegi að rifja upp það sem stendur í bæklingi ríkisstjórnarinnar, Sjálfbær þróun í íslensku samfélagi, um velferð til framtíðar. Þar er einmitt fjallað um fræðslu, vöktun, rannsóknir og vísa um sjálfbæra þróun sem allt eru hlutir sem koma við þessari upplýsingasöfnun Hagstofu Íslands. Það er ljóst að það hefur ekki farið fram mikil vinna hér á landi við að skilgreina eða þróa vísa á sviði umhverfismála og þó að Hagstofan safni öllum þessum upplýsingum höfum við kannski ekki stigið til fulls það skref að tengja þessar tölulegu upplýsingar við markmiðssetningu okkar, t.d. markmiðssetningu varðandi sjálfbæra þróun. Ég tel að það sé afar mikilvægt að stjórnvöld taki hlutverk sitt alvarlega, ekki bara söfnun upplýsinga og vöktun ástandsins heldur ekki síður miðlunina. Þessum upplýsingum þarf að miðla á ýmsan hátt, til skóla, til almennings og beinlínis til stjórnvalda sjálfra þegar verið er að taka ákvarðanir.