132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Fangaflug bandarísku leyniþjónustunnar.

205. mál
[13:13]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F):

Herra forseti. Hæstv. utanríkisráðherra hefur svarað alveg ótvírætt þeirri spurningu sem fyrir hann var lögð. Íslensk stjórnvöld munu ekki samþykkja það að flugvélar með fanga eða meinta hryðjuverkamenn hafi aðgang að íslenskri lofthelgi eða afnot af íslenskum flugvöllum. Ég fagna því að afstaða ráðherrans og ríkisstjórnarinnar er ótvíræð í því efni. Ég vil hins vegar hvetja hæstv. ráðherra til þess að hann og ríkisstjórnin öll gangi hart fram í því að íslensk yfirvöld fylgi eftir þessum vilja og sitji ekki með hendur í skauti og bíði eftir að Bandaríkjamenn upplýsi um það sem þeir hugsanlega hafa í hyggju.

Því miður er staðan sú að Bandaríkin, þessi brjóstvörn lýðræðis um áratugi, eru orðin uppvís að því að sniðganga alþjóðamannréttindasáttmála og fótumtroða almenn grundvallarmannréttindi og þeim er því miður ekki treystandi, virðulegi forseti.