132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Háhraðanettengingar.

117. mál
[13:36]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni fyrir að vekja athygli á þessu máli í dag með fyrirspurn til hæstv. samgönguráðherra.

Virðulegi forseti. Ég lít svo á að aðgengi að háhraðatengingu sé og eigi að vera skilgreindur hluti af nauðsynlegri grunnþjónustu hér á landi, vegna þess að í því samfélagi sem við búum í dag á þetta að vera hluti af grunnþjónustu svo sem eins og vatni, hita og öðru vegna þess hve stóran þátt netið og aðgengi að því spilar í samfélaginu og daglegum störfum. Þetta hefur áhrif á tækifæri til menntunar, þetta hefur áhrif á tækifæri til atvinnu svo ekki sé talað um menningarþáttinn á netinu, í gegnum tölvuna, í gegnum háhraðatengingar, þar er að finna stóran hluta af því sem kallast dægurmenning dagsins í dag. Ég tel að það eigi ekki að halda ungu fólki úti á landi utan við þann þátt sem finna má á netinu þannig að ég vil sjá háhraðatengingu sem skilgreindan hluta af grunnþjónustunni.