132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Verð á heitu vatni.

259. mál
[19:34]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Ég hef ákveðið að beina fyrirspurn til hæstv. iðnaðarráðherra um verð á orku. Verð á raforku hefur verið nokkuð til umfjöllunar og einnig má segja frá því að reikningar Rariks eru mjög illskiljanlegir. Ég hef sagt frá því áður að maður á níræðisaldri hafði samband við mig frá Skagaströnd og kvartaði yfir því að hann skildi ekki reikningana sína enda voru þeir upp á 16 blaðsíður. Ég skildi í rauninni vel að hann ætti erfitt með að skilja þá því að margir eiga mjög erfitt með að skilja þessa reikninga. Mér finnst með ólíkindum að ráðherra sem starfað hefur í hálfan áratug við þetta verkefni skuli ekki hafa beitt sér fyrir því að einfalda rafmagnsreikningana þannig að fólk skilji þá. Nú er verið að boða til ráðstefnu um orkusparnað á Akureyri og ég tel að ætli menn að ná árangri t.d. á því sviði að fólk geti dregið úr orkunotkun sé mikil forsenda að fólk skilji rafmagnsreikningana.

Áður en ég ákvað að spyrja hæstv. iðnaðarráðherra beindi ég þeirri fyrirspurn fyrst til umdæmisstjóra Rariks hvernig og hvort hægt væri að bera saman verð á orku á milli rafveitna Rariks í landinu, en það vill svo til að Rarik er með hitaveitu á fimm stöðum í landinu og er með fjórar mismunandi gjaldskrár. Ég fékk óskiljanleg svör.

Ég vil því beina þeirri fyrirspurn til hæstv. ráðherra hvort hún hyggist beita sér fyrir því að orkunotendur geti borið saman verð á milli hitaveitna Rariks. Ef svo er, hvenær mun það verða?

Síðan beini ég til hennar annarri fyrirspurn: Hverjar eru helstu forsendur fyrir mismunandi orkuverði hjá hitaveitum Rariks sem nota jarðvarma?

Þetta er mjög mikilvæg spurning og ég vona að hæstv. ráðherra geri sér grein fyrir að ekki er hægt að bjóða neytendum upp á að geta hvorki skilið reikningana sína né áttað sig á hverjar forsendurnar eru fyrir útreikningunum.