133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

bráðaþjónusta á Suðurnesjum.

133. mál
[14:06]
Hlusta

Guðjón Ólafur Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Hér er rætt um málefni Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja. Ég vil geta þess að heilbrigðisnefnd Alþingis undir minni forustu fór og sótti heim þessa ágætu heilbrigðisstofnun fyrr í haust. Það er alveg ljóst að miklar breytingar hafa orðið á starfsemi þessarar stofnunar á undanförnum árum og þjónusta við Suðurnesjabúa hefur verið bætt stórkostlega. Þarna hefur aðgerðum fjölgað mjög mikið og íbúar á svæðinu hafa í auknum mæli geta leitað sér þjónustu sem þeir ella hefðu þurft að leita að í Reykjavík. Þetta þýðir auðvitað að það er einfaldara fyrir íbúa að ná í þjónustuna, minni fjarvera og það eru því væntanlega einhver jákvæð samfélags- og þjóðhagsleg áhrif af þessu.

Það liggur hins vegar fyrir að fjárhagsstaða stofnunarinnar er erfið vegna allra þessara breytinga og sá viðbótarkostnaður sem af mundi hljótast samkvæmt fyrirspurn hv. þm. Jóns Gunnarssonar (Forseti hringir.) er 45 millj. kr. eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra.