133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

Garðyrkjuskólinn á Reykjum í Ölfusi.

156. mál
[15:24]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Um árabil, áratugaskeið, hefur verið rekið mjög rismikið og glæsilegt nám í garðyrkjufræðum í Garðyrkjuskólanum á Reykjum í Ölfusi. Fyrir nokkru síðan, ári eða svo, varð Garðyrkjuskólinn á Reykjum í Ölfusi hluti af Landbúnaðarháskóla Íslands sem hefur aðalstöðvar sínar á Hvanneyri.

Þá var því lýst yfir að áfram yrði starfrækt nám á Reykjum í Ölfusi, í Garðyrkjuskólanum, þar yrði byggt upp við stofnunina, byggt yfir skólann sem er í mjög gömlu, lasburða og úr sér gengnu húsnæði. Öll yfirbygging yfir skólann er í fullkomnum lamasessi, húsið er óviðunandi og það viðurkenna allir.

Síðan þá hefur verið um það rætt hvort færa eigi starfsemi skólans frá Reykjum í Ölfusi upp á Hvanneyri. Sjálfsagt stendur vilji ýmissa til þess en því var lofað á sínum tíma að það yrði byggt upp við Garðyrkjuskólann á Reykjum og við þau loforð á að sjálfsögðu að standa enda væri fráleitt að leggja af eina staðbundna háskólanámið á þessu svæði og flytja það í burtu.

Saga skólans er glæsileg, hún er merk og þarna á áfram að vera fyrirtaks- og fyrsta flokks menntastofnun í garðyrkjufræðum, enda hvar annars staðar ef ekki þar?

Hæstv. landbúnaðarráðherra lýsti því yfir að þar yrði áfram starfræktur skóli. Síðan hefur orðið bið á því að afdráttarlaust yrðu tekin af öll tvímæli um það. Ef á að byggja þarna upp þarf það að koma fram núna. Óvissan er óþolandi. Hún hefur vond áhrif á nemendur, hún hefur vond áhrif á starfsmenn skólans og hún hefur vond áhrif á starfsemi skólans.

Það þarf að taka af öll tvímæli. Það á að byggja upp að mínu mati nýtt og glæsilegt húsnæði. Þarna á áfram að vera skóli. Hæstv. landbúnaðarráðherra sem er menntamálaráðherra landbúnaðarháskólanna, eins og fyrirkomulagið hjá okkur er núna, verður að skera þar úr um og taka af öll tvímæli þó að sumir sem koma að rekstri skólans séu þess sjálfsagt fýsandi að færa hann allan upp á Hvanneyri.

Loforð skal standa. Orðin skulu standa um þessa uppbyggingu. Þess vegna beini ég eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. landbúnaðarráðherra: Hefur verið tekin ákvörðun um framtíð Garðyrkjuskólans á Reykjum í Ölfusi eftir sameiningu hans við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri? Verður skólinn áfram starfræktur á Reykjum? Skýr svör, hæstv. ráðherra, skýr svör.