135. löggjafarþing — 23. fundur,  13. nóv. 2007.

fullvinnsla á fiski hérlendis.

38. mál
[16:25]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður lagði fyrir mig spurningar sem mér er ljúft að svara. Annars er hér í þingsal staddur þingmaður sem er betur í stakk búinn til að svara að minnsta kosti annarri spurningu hv. þingmanns. Hv. þm. Illugi Gunnarsson er formaður nefndarinnar sem hv. þm. Jón Bjarnason gerði að umtalsefni þannig að ég tel eðlilegast að vísa þessu til hans.

Það sem fyrir mér vakti með skipun nefndarinnar var að reyna að skapa meira jafnræði og styrkja stöðu fiskvinnslunnar. Þegar við skoðum tölur um útflutning á óunnum eða ísvörðum fiski í gámum blasir einfaldlega við að gámaálagið dugði ekki til að bremsa þetta af. Það eru svo margar ástæður sem ráða því hvenær menn taka ákvörðun um að flytja fisk út í gámum án þess að flaka hann eða vinna hann frekar, þær eru nánast óteljandi ástæðurnar sem geta legið þar að baki. Það geta verið sérstakar markaðsaðstæður í viðkomandi landi. Það getur verið aukning á kvóta, eins og t.d. á ýsunni — sú aukning leiddi til þess að menn fóru í meira mæli að flytja út, fiskvinnslan hér innan lands var ekki fær um að bregðast við þessu.

Sem betur fer hefur fiskvinnslan í landinu verið að eflast. Við sjáum að menn hafa verið að fjárfesta í ýmiss konar tækni. Ef ég tek uppsjávarfiskinn sem dæmi hefur bylting átt sér stað. Vinnsla á uppsjávarfiski hefur aukist stórlega vegna þess að menn hafa í krafti stærðar sinnar og öflugrar fjárhagslegrar stöðu getað fjárfest í tækni sem gerir þeim kleift að vinna þennan fisk með allt öðrum hætti en áður var.

Mjög mörg dæmi eru um að fiskvinnslan hafi verið að sækja í sig veðrið. Auðvitað viljum við að fiskvinnslan sé sem öflugust. Það verður gert bæði með því að tryggja að hér sé bærilegt jafnvægi í efnahagslífinu og með því að skapa jafnræði í (Forseti hringir.) samkeppni innan sjávarútvegsins.