136. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2008.

fjármálafyrirtæki.

119. mál
[14:09]
Horfa

Frsm. minni hluta viðskn. (Atli Gíslason) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir minnihlutanefndaráliti mínu sem fulltrúa Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í viðskiptanefnd.

Meginmarkmið þessa frumvarps er að gera breytingar á núgildandi lögum er snúa að gjaldþrotaskiptum og greiðslustöðvun fjármálafyrirtækja sem Fjármálaeftirlitið hefur tekið yfir stjórn á. Frumvarpið er afsprengi laga nr. 125/2008, svonefndra neyðarlaga, sem samþykkt voru á Alþingi 6. október sl. Vinstri hreyfingin – grænt framboð studdi þá að málið yrði tekið fyrir með afbrigðum og fengi skjóta afgreiðslu í ljósi þess að frumvarpið væri illskásti neyðarkosturinn í stöðunni. Hins vegar sat Vinstri hreyfingin – grænt framboð hjá við endanlega afgreiðslu málsins með vísan til þess meðal annars að ríkisstjórnin bæri ein ábyrgð á efnahagshruninu og auk þess hefði hún ekkert samráð haft við stjórnarandstöðuna við undirbúning málsins. Þá hafi einnig verið óljóst hvernig heimildir samkvæmt frumvarpinu yrðu nýttar og hvernig framkvæmdin mundi takast til. Vinstri hreyfingin – grænt framboð vildi ekki bera ábyrgð á því fyrir fram hvernig til mundi takast. Frumvarpið sem hér er rætt sýnir að ástæða var til að efast allverulega um það og kem ég betur að því síðar.

Minni hluti viðskiptanefndar hefur kynnt sér efni þessa frumvarps eins og kostur er með mjög stuttum fyrirvara og við sérstakar aðstæður. Málið er eins og neyðarlögin borið fram af viðskiptaráðherra án samráðs við stjórnarandstöðuna og lítið ráðrúm gefið til að gaumgæfa málið í nefnd, þótt nú séu liðnar rúmar fimm vikur frá setningu neyðarlaganna og þessi viðbrögð hefðu hugsanlega átt að koma mun fyrr.

Það er líka illt, herra forseti, að ekki skuli við meðferð málsins í þingnefnd hafa verið kallað eftir skriflegum umsögnum hagsmunaaðila. Það er ekki í þeim anda sem mælir fyrir um vönduð vinnubrögð við lagasetningu.

Þá hefur þess ekki verið gætt að leita skriflegra umsagna og kalla til alla þá hagsmunaaðila sem málið varðar, svo sem réttarfarsnefnd, okkar æðsta sérfræðingahóp í réttarfarsmálum, innlenda kröfuhafa, smærri kröfuhafa í bönkunum, sem geta orðið fórnarlömb nauðasamninga og greiðslustöðvunar og fjárfesta. Ég vil þó halda kröfu minni til haga — ég óskaði eftir því með tölvupósti sl. föstudag við staðgengil formanns nefndarinnar, varaformann nefndarinnar — að réttarfarsnefnd kæmi fyrir og skilaði skriflegri umsögn.

Benedikt Bogason frá réttarfarsnefnd kom á fund viðskiptanefndar 10. nóvember sl. en tók þar fram að nefndin hefði ekki fjallað um málið. Lögð er mikil áhersla á að frumvarpið nái fram að ganga fyrir fyrirhugaðan fund skilanefnda bankanna með erlendum kröfuhöfum sem fram fer á morgun, fimmtudag og föstudag, allt án haldbærra skýringa. Af hverju er nauðsynlegt að flýta afgreiðslu frumvarpsins með þessum hætti og skoða það ekki í víðu samhengi? Minni hlutinn telur að það sé ólíðandi að löggjafarvaldið sé sett í þá aðstöðu að þurfa að afgreiða jafnafdrifaríkt mál, sem kann að hafa jafnafdrifaríkar afleiðingar, frá Alþingi í flýti og óðagoti vegna meintrar pressu frá erlendum kröfuhöfum. Ég óskaði eftir því á fundi nefndarinnar að þetta yrði skjalfest. Það kom ekkert fram. Gengur vilji erlendra kröfuhafa framar vönduðum löggjafarstörfum? Gengur vilji erlendra kröfuhafa framar innlendum kröfum, þeim smærri kröfum sem kunna að verða fórnarlömb í greiðslustöðvun? Hagsmuna þeirra er nefnilega betur gætt innan gjaldþrotaskipta.

Þá vísar minni hlutinn til þess að neyðarlögin hafi fyrst og fremst verið sett til að vernda íslenskt hagkerfi, tryggja hagsmuni almennings á Íslandi og skapa skilyrði fyrir stöðugleika í efnahagslífinu. Því sé einkennilegt að nú eigi að víkja frá grundvallarskilyrðum í íslenskum gjaldþrotalögum sökum meintrar pressu frá erlendum kröfuhöfum og órökstuddra staðhæfinga þeirra og ég ítreka það, órökstuddra staðhæfinga þeirra um að það þjóni betur hagsmunum hinna gjaldþrota banka að fara í greiðslustöðvun og síðar hugsanlega nauðasamninga. Séu bankarnir í raun gjaldþrota, eins og fullvissa virðist vera um, nema hugsanlega hvað Kaupþing varðar, það var upplýst á fundum nefndarinnar, er þeim engu síður skylt að gefa sig upp til gjaldþrotaskipta þrátt fyrir þær breytingar sem frumvarpið boðar. Vísast þar m.a. til laga um hlutafélög og laga um fjármálafyrirtæki og kem ég betur að því síðar. Hér er vert að benda á að á fundi með viðskiptanefnd kom fram hjá fulltrúum viðskiptaráðuneytisins, Fjármálaeftirlitsins og skilanefnda bankanna að erlendir lánardrottnar vildu að farið væri í þekkt og viðurkennt ferli gagnvart þeim bönkum sem hér um ræðir. Hver eru þá rökin fyrir því að afnema nú þýðingarmikil ákvæði gjaldþrotaskiptalaga, sem er fordæmalaust hérlendis sem erlendis, og fara út í greiðslustöðvun og hugsanlega nauðasamninga sem eru óþekktar leiðir gagnvart fjármálafyrirtækjum sem eru de facto gjaldþrota? Aðspurður á nefndarfundi viðskiptanefndar þekkti fulltrúi Fjármálaeftirlitsins ekki til slíkra dæma erlendis. Sem sé, við erum að fara inn í óvenjulegt ferli sem ekki er þekkt, hvorki hér á landi né erlendis og að ég skil best, þvert á vilja hinna erlendu lánardrottna. Hvaða tilgangur er á bak við það? Einnig skal því haldið til haga að fulltrúi skilanefndar Kaupþings tjáði viðskiptanefnd á fundi 7. nóvember sl. að bankinn fullnægði núgildandi skilyrðum laga fyrir greiðslustöðvun. Boðaðar breytingar, þ.e. afnám 4. og 6. töluliða 2. mgr. 12. gr. gjaldskrárskiptalaga, eru þar með óþarfar gagnvart þeim banka.

Minni hlutinn telur að við þær aðstæður sem nú eru uppi sé enn brýnna en ella að vandað sé til lagasetningar og breytinga og að ekki sé gripið til illa ígrundaðra úrræða sem kunni, og það eru töluvert miklar líkur á því, að skaða almenning, almenningsálitið og þjóðarbúið enn frekar þegar til framtíðar er litið. Ég nefni bara eitt dæmi. Segjum að þessi leið greiðslustöðvana og nauðasamninga verði farin og standi í allan þann tíma sem boðaður er með frestunum, ef það mistekst og búið fer svo í gjaldþrotaskipti, hvað erum við þá búin að gera með því að tefja tímann með þessum hætti?

Minni hlutinn telur að frumvarpið í upphaflegri mynd með ákveðnum breytingum kunni að hafa verið þarft. Sama gildir um breytingartillögur varðandi svonefndan frestdag en leggst eindregið gegn frumvarpinu að öðru leyti og munum væntanlega sitja hjá um þetta frumvarp nema hvað varðar 4. og 6. tölulið sem ég mun a.m.k. greiða atkvæði gegn. Vel má vera að þörf sé á að tryggja eins og kostur er með lagabreytingum heimildir hinna gjaldþrota banka til að geta haldið starfsemi sinni áfram til að lágmarka tjón þeirra og þar með kröfuhafa og þar með þjóðarbúsins. Slíkar heimildir, til að lágmarka tjón, til að halda áfram rekstri, er hins vegar þegar að finna í núgildandi lögum um gjaldþrotaskipti, nr. 21/1991, sem taka einnig til fjármálafyrirtækja samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, ég vísa þar sérstaklega til 72. gr. gjaldþrotaskiptalaga. Rekstur þrotabúa bankanna sem fjármálafyrirtækja er einnig háður núgildandi lögum um fjármálafyrirtæki. Telji Fjármálaeftirlitið að lagaheimildir skorti til að veita þrotabúum bankanna starfsleyfi er unnt að bæta úr því með einfaldri lagabreytingu án þess að setja gjaldþrotalög og tengd lög í uppnám.

Á fundi viðskiptanefndar um frumvarpið 7. nóvember sl. voru kynnt til sögunnar ný og einkar umdeilanleg ákvæði til breytinga á lögum um fjármálafyrirtæki, aðeins um hálfum sólarhring eftir að viðskiptaráðherra mælti fyrir frumvarpinu á Alþingi. Það verða að teljast ámælisverð vinnubrögð og sýnir glöggt að hið upphaflega frumvarp var vanhugsað. Þar er boðað, eins og ég sagði áðan, ákvæði þess efnis að svonefndur frestdagur við gjaldþrotaskipti miðist m.a. við það tímamark er skilanefndir voru skipaðar. Þetta er þarft ákvæði. Hins vegar eru boðaðar þær breytingar, samanber ákvæði til bráðabirgða, að felldir verði niður 4. og 6. töluliðir 2. mgr. 12. gr. gjaldþrotaskiptalaga, þegar fjármálafyrirtæki leitar eftir greiðslustöðvun samkvæmt kröfu Fjármálaeftirlitsins á grundvelli 100. gr. a. laga um gjaldþrotaskipti. Með frumvarpinu er verið að víkja frá tveimur grundvallarskilyrðum sem fram koma í lögum um gjaldþrotaskipti, varðandi skyldu dómara að synja um heimild til greiðslustöðvunar. Dómara er beinlínis skylt að synja um greiðslustöðvun ef fyrirtæki er gjaldþrota. Minni hlutinn telur að með þessum breytingum sé verið að tryggja að þeir bankar sem sannanlega eru komnir í gjaldþrot fái ekki synjun dómara um greiðslustöðvun og geti því í framhaldinu leitað nauðasamninga. Vert er að benda á að þessi gjaldþrotaskiptalög, sem eru að verða 100 ára gömul með breytingum, eru byggð að norrænni fyrirmynd og frávik frá afar mikilvægum skilyrðum gjaldþrotaskiptalaga við þessar sérstöku aðstæður, eins og stefnt er að með frumvarpinu, eru til þess fallin að valda tortryggni og grafa undan trausti okkar jafnt innan lands sem og á alþjóðavísu. Algerlega ástæðulaust er að grípa til þessara breytinga á lögunum meðan skilanefndirnar hafa ekki séð fyrir endann á því hver staða bankanna er. Það var líka upplýst á fundum viðskiptanefndar og ég ítreka að þetta getur líka orðið á kostnað smærri innlendra hluthafa. Hér ráða ferðinni hagsmunir stórra erlendra lánardrottna. Það kom margsinnis fram á fundum nefndarinnar. Var það tilgangur neyðarlaganna? Ætluðum við ekki að verja Ísland og íslenskan almenning?

Ég vil taka undir og minni hlutinn áréttar þau sjónarmið sem fram komu á fundi nefndarinnar hjá Steinunni Guðbjartsdóttur, sem situr í skilanefnd Glitnis, að óeðlilegt væri að víkja frá tilgreindum skilyrðum gjaldþrotaskiptalaganna. Minni hlutinn telur nefndar breytingar vanhugsaðar og ófaglegar og þær eru ekki skoðaðar í víðu samhengi eins og nauðsyn ber til. Þær eru skoðaðar mjög þröngt en ekki í víðu samhengi. Þær heimili greiðslustöðvun og hugsanlega nauðasamninga fjármálafyrirtækja sem eru gjaldþrota og séu til þess fallnar að valda tjóni og fjölda málaferla. Ríkið kann auk þess að verða skaðabótaskylt vegna þessara breytinga bæði gagnvart kröfuhöfum og ekki síður fyrirtækjum í öðrum rekstri á Íslandi sem kunna að verða gjaldþrota. Það skal ítrekað að þrátt fyrir umræddar breytingar á ákvæðum 12. gr. gjaldþrotaskiptalaga er umræddum fjármálafyrirtækjum, og Fjármálaeftirlitinu að sjá til þess, að viðlagðri refsingu engu síður skylt að gefa sig upp til skipta á grundvelli annarra ákvæða laga og greiðslustöðvun ólögleg samkvæmt þeim. Ég kem betur að því síðar en vil benda á það og fullyrða bæði af reynslu minni sem lögmaður og lögfræðingur og viðtölum við þá lögmenn sem best til þekkja í réttarfari í dag að gjaldþrotaskiptaferlið er traustara, vandaðra og gegnsærra ferli og tryggir betur réttarstöðu kröfuhafa og er mun betri og faglegri kostur fyrir þá en greiðslustöðvun og nauðasamningar. Það er nú einu sinni þannig. Ég ítreka að sú hætta er fyrir hendi að leið greiðslustöðvunar og nauðasamninga tefji ferlið sem geti leitt til frekara fjártjóns og þar getur ríkið orðið skaðabótaskylt, eins og áður er rakið. Minni hlutinn fullyrðir að með gjaldþrotaskiptaferli sé hægt að ná öllum markmiðum greiðslustöðvunar og nauðasamninga og gott betur, öllum þeim markmiðum sem hv. formaður viðskiptanefndar lýsti í ræðustól áðan, og gott betur vegna þess að ferlið er vandaðra. Ég leyfi mér að ítreka að engin haldbær rök studd skjalfestum gögnum hafa komið fram á fundum viðskiptanefndar um frumvarpið sem mæla með þessu greiðslustöðvunar- og nauðasamningaferli. Ég held því fram, sem er auðvitað alvarlegt mál, að þessi breyting á gjaldþrotaskiptalögunum, 4. og 6. töluliður 2. mgr. 12. gr., feli í sér í sér brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Hvað með önnur fyrirtæki í landinu sem munu á næstu mánuðum fara í þrot? Mun verða vikið frá sömu skilyrðum og hér er verið að mæla fyrir gagnvart bönkunum? Hvers eiga þau að gjalda? Ég ætla ekki að nefna nein fyrirtæki en það eru stór fyrirtæki á Íslandi sem slaga upp í þessa banka og standa illa, hvers eiga þau að gjalda? Við höfum búið við farsælt gjaldþrotaskiptakerfi í um eina öld og það er glatað að fórna því með vanhugsuðum tillögum sem ekki hafa verið skoðaðar í víðara samhengi, hv. þm. Jón Magnússon, sem á að vita betur. (Gripið fram í.) Það er ég ekki viss um.

Það sama gildir um lengda fresti. Þeir eru umdeilanlegir og við getum ekki stutt frumvarpið í þessari mynd og ég fyrir hönd þess minni hluta sem ég stend að geri kröfu til að frumvarpið verði samið frá grunni. Þessi sjónarmið mín eru ekki gripin úr lausu lofti.

Benedikt Bogason, einn alfærasti réttarfarssérfræðingur okkar og fulltrúi í réttarfarsnefnd, tók fram á fundi viðskiptanefndar 10. nóvember að frumvarpið, með áorðnum breytingum, kæmi sér spánskt fyrir sjónir. Hann tók fram að réttarfarsnefnd hefði ekki fengið frumvarpið til skoðunar og nefndin sem slík ekki komið að málinu. Það er auðvitað með ólíkindum. Við höfum sérstaka réttarfarsnefnd til að gaumgæfa það að breytingar á réttarfarslöggjöf okkar séu haldbærar og hún kemur ekki að málum. Í henni sitja eins og ég ítrekaði færustu sérfræðingar Íslands í réttarfari. Þeir hafa allir uppi þessi aðvörunarorð. Benedikt Bogason benti enn fremur á að greiðslustöðvun og nauðasamningar væru réttarúrræði í þágu skuldara, ekki kröfuhafa. Menn skyldu átta sig á því. Hann tók skýrt fram að þrátt fyrir tillögur um að fella niður 4. og 6. tölulið 2. mgr. 12. gr. gjaldþrotaskiptalaga, sem ég hef gert að umtalsefni, væri þeim bönkum sem væru raunverulega gjaldþrota skylt að gefa sig upp til gjaldþrotaskipta og þar vísa ég í 102. gr. laga um fjármálafyrirtæki þar sem minnsti vafi á því að eignir hrökkvi fyrir skuldum á að leiða til þess að Fjármálaeftirlitið á að hafa frumkvæði að gjaldþrotaskiptum. Það stendur í þessari grein. Sama gildir um hlutafélagalögin. Nú stöndum við frammi fyrir því að það á að fara að undanþiggja tvo töluliði til að komast í greiðslustöðvun en engu að síður stendur að fyrirtækjum, sem skulda meira en þau eiga, sé skylt að fara í gjaldþrotaskipti.

Í lagagreininni er talað um að þegar óvíst sé að eignir hrökkvi fyrir skuldum þá eigi að fara í skipti. Einber vafi skyldar Fjármálaleftirlitið til að gera kröfu um gjaldþrotaskipti. Benedikt Bogason vísaði einnig til 105. gr. laga um hlutafélög. Hann varaði enn fremur við hugsanlegri bótaábyrgð ríkisins og taldi að verið væri að fara inn á einkar varhugaverðar brautir, eins og ég orðaði það í nefndaráliti minni hlutans. Hann sagði reyndar og notaði þannig orð, hann taldi að við værum að fara inn á jarðsprengjusvæði, það var ekki minna. Hann tók líka skýrt fram að gjaldþrotaferlið væri tryggara ferli fyrir kröfuhafa. Það er fyrir kröfuhafa. Af hverju er þá verið að fara út í nauðasamninga sem eru úrræði fyrir skuldarana að kröfu erlendra lánardrottna? Hvað hangir á þeirri spýtu? Það er illt í efni þegar réttarfarsnefnd er hunsuð með þeim hætti sem raun ber vitni og fyrir mér óásættanlegt að menn leiki sér með réttarfarslögin með þessum hætti.

Það er mín eindregna skoðun að það stefni í réttarfarslegt og þjóðhagslegt slys ef gjaldþrota bönkum verður beint í farveg greiðslustöðvunar og nauðasamninga. Það er þess vegna sem ég legg til í minnihlutaálitinu að frumvarpið komi aftur til viðskiptanefndar milli 2. og 3. umr. og þar verði leitað skriflegs álits réttarfarsnefndar að undangengnum fundi hennar um málið, formlegum fundi og formlegum efnistökum réttarfars utan um málið. Það blasir við.

Minni hlutinn telur, herra forseti, að mörgum spurningum sé ósvarað hvað frumvarp þetta varðar og þær breytingar sem lagðar hafa verið til á því. Hver eru áform ríkisstjórnarinnar varðandi framtíðarskipan fjármálafyrirtækja á Íslandi, hv. formaður viðskiptanefndar? Hver eru framtíðaráformin? Hver á framtíðarskipunin að verða? Þessari spurningu og fleirum verður viðskiptaráðherra og ríkisstjórnin að svara afdráttarlaust.

Í Morgunblaðinu í morgun komu fram ákveðnar upplýsingar um þetta mál. Er það tilgangur laganna að í landinu starfi sex bankar? Það kom fram í ræðu hv. formanns viðskiptanefndar að það ætti að stíla upp á það að bankarnir héldu áfram starfsemi, þeir byrjuðu upp á nýtt og erlendir kröfuhafar kæmu inn sem hluthafar, þ.e. við fengjum þá væntanlega þrjá erlenda banka til Íslands til viðbótar við þrjá ríkisbanka. Eða hangir e.t.v. á spýtunni að sameina eigi síðan þessa erlendu þrjá banka ef allt gengur nú upp við ríkisbankana og einkavæða þá? Hafa menn virkilega ekki fengið nóg af einkavæðingunni, hinni sex ára gömlu einkavæðingu sem hefur leitt þjóðina í mestu ógæfu efnahagsmála sem hún hefur upplifað? Er ekki nóg komið? Hvernig á að varða leiðina fram á við? Hvað er verið að gera? Eða eins og einhver maður úti í bæ sagði, er þetta bara valdabarátta? Er þetta valdabarátta Fjármálaeftirlitsins við ríkisstjórnina og Seðlabankann? Er verið að búa til ríkisstjórn Íslands hjá Fjármálaeftirlitinu inni á Suðurlandsbraut? Er það það sem verið er að gera? Hvað er verið að gera? Hver er tilgangurinn með þessum breytingum? Það verða að koma skýr svör við því. Það er óhjákvæmilegt. Það er algerlega óhjákvæmilegt að það komi fram hvert menn eru að stefna. Ætla menn ekki að læra af reynslunni?

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um frumvarpið eins og það er lagt fyrir af meiri hluta viðskiptanefndar en vil mæla svo fyrir tveimur öðrum breytingartillögum sem ég þarf ekki að skýra, þær liggja frammi á þingskjali. Minni hlutinn leggur til þær breytingar á frumvarpinu að kjararáði verði falið að ákveða laun og starfskjör bankastjóra og annarra starfsmanna fjármálafyrirtækja sem eru í meirihlutaeigu ríkisins. Átt er við þá starfsmenn fjármálafyrirtækjanna, bankastjóra og aðra æðstu starfsmenn, sem ekki taka laun samkvæmt kjarasamningum vegna eðlis starfanna og samningsstöðu. Minni hlutinn telur að með slíkri lagasetningu, með slíkri breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, verði alfarið snúið af braut þeirrar öfgafullu launaþróunar, ofurlaunaþróunar, sem orðið hefur eftir að bankarnir voru einkavæddir.

Við teljum að nú séu, í eitt skipti fyrir öll, herra forseti, dagar ofurlauna, bónusgreiðslna og kaupréttarsamninga liðnir. Eðlilegt sé að miða laun bankastjóra og annarra æðstu starfsmanna við laun ráðuneytisstjóra og forstöðumanna ríkisstofnana. Brýnt er að gætt sé innbyrðis samræmis í starfskjörum ríkisstarfsmanna með tilliti til starfa og ábyrgðar. Það er ekkert sem réttlætir það að ríkisbankastjórar og aðrir yfirmenn fjármálafyrirtækja ríkisins séu á sérkjörum og ofurlaunum, eins og raun ber vitni. Ekkert réttlætir það og þjóðin kallar á breytingu og hrópar á breytingar í mótmælum sínum gegn ríkisstjórninni.

Minni hlutinn gerir kröfu til þess að snúið verði þegar í stað af þeirra braut ofurlauna og græðgi, siðspillandi græðgi, sem gegnsýrt hefur þjóðfélagið undanfarin allt of mörg ár, með hörmulegum afleiðingum. Ég þarf ekki að skýra út hvernig kjararáð vinnur. Það eru vönduð vinnubrögð þar. Menn fá að tjá sig, gagna er aflað og þar fram eftir götunum og vísað í lögin um kjararáð.

Minni hlutinn leggur einnig til þær breytingar, nú þegar bankarnir eru orðnir í meirihlutaeigu ríkisins, að þeir lúti ákvæðum stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og upplýsingalaga, nr. 50/1996. Minni hlutinn telur að slík lagasetning muni tryggja réttaröryggi og jafnræði borgaranna í samskiptum við bankana og auka gegnsæi. Sá leyndarhjúpur sem umlukið hefur starfsemi þeirra banka sem hér um ræðir hefur verið gróðrarstía misréttis og hefur, ásamt öðru, leitt til efnahagshrunsins. Það er fjallgrimm skoðun mín.

Að lokum ítreka ég að málið fari til nefndar á nýjan leik og ítarlegrar skriflegrar umsagnar réttarfarsnefndar verði aflað og frumvarpið skoðað í víðara samhengi. Hagsmunir hinna erlendu kröfuhafa á fundum með skilanefndum á morgun, fimmtudag og föstudag réttlæta ekki að hér sé afgreitt frumvarp sem ekki er vandað að efni og gerð.