136. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2008.

fjármálafyrirtæki.

119. mál
[16:09]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þm. Álfheiði Ingadóttur að það er mjög mikilvægt að menn læri af þessari reynslu allri og ekki bara Íslendingar heldur öll heimsbyggðin því að hér hafa komið í ljós ákveðnir gallar í kerfunum. Ég nefni t.d. gagnkvæmt eignarhald, það er ákveðinn galli í öllum kerfunum hvað það er orðið víðtækt um allan heim. Ég nefni jöklabréfin sem hrönnuðust upp á Íslandi og við þurfum að læra af. Ég nefni Icesave sem er veila í regluverki Evrópusambandsins og þyrfti að læra af, ekki bara við heldur Evrópusambandið sjálft, hvernig einkafyrirtæki virðast geta „skuldbundið skattgreiðendur“ í gæsalöppum, því að sjálfsögðu gera þeir það ekki, á endanum tekur skattgreiðandinn, þ.e. Alþingi, ákvörðun um þetta.

Þegar skuldarar lenda í vandræðum er það ráð allra góðra manna að þeir snúi sér til kröfuhafa og opni gluggaumslögin. Þetta á við um einstaklinga, þetta er fyrsta ráð sem menn gefa skuldurum í vandræðum; opnið þið gluggaumslögin og hafið þið samband við kröfuhafa. Þetta er einmitt það sem íslensku bankarnir og íslenska þjóðin á að gera núna, hún á að hafa samband við kröfuhafa og hún er að því. Það frumvarp sem við ræðum hér er liður í því.

Mér þótti því dálítið slæmt að hv. viðskiptanefnd hafði ekki fengið á sinn fund fulltrúa þessara kröfuhafa. Nú veit ég það og hér hefur komið fram í umræðum að það eru mjög stórir kröfuhafar, verulega stórir kröfuhafar, það eru þýskir bankar sem sennilega eiga yfir helminginn af þessum kröfum, þessum gífurlegu kröfum sem íslensku bankarnir skulduðu. Þeir eru þarna sem fulltrúar þýskra sparifjáreigenda, sem hafa lagt þetta fé inn, og það er mjög mikilvægt að þeir séu — þeir verða náttúrlega aldrei sáttir við niðurstöðuna — með í að móta niðurstöðuna og verði eins sáttir og hægt er, þ.e. ef við ætlum að eiga viðskipti við þá í framtíðinni, sem er líka mjög mikilvægt fyrir atvinnuuppbyggingu á Íslandi. Ég held því að það sé mjög mikilvægt að við vinnum með kröfuhöfum að lausn þessa vanda.

Hinn venjulegi Íslendingur lagði ekki inn á og leyfði ekki reikninga Icesave í Hollandi. Hann stóð ekki að því að veita lán til þýskra banka þannig að hann ber enga ábyrgð nema það að fá að halda velvild í þessu alþjóðlega umhverfi. Það er mjög mikilvægt fyrir okkur, bæði gagnvart Icesave-reikningunum og gagnvart þessum stóru kröfuhöfum, að menn séu eins sáttir og hægt er og að lausnin sé unnin í sátt við þá kröfuhafa sem gera kröfu á Íslendinga. Jafnframt, og ég undirstrika það, þurfa þeir að skoða hvað mikið er hægt að leggja á íslenska þjóð og hvað mikið er skynsamlegt að leggja á íslenska þjóð þannig að hún brotni ekki undan því og skili eins miklum afrakstri og afköstum og við höfum gert hingað til og verði ekki brotin í því starfi.