136. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2008.

húsnæðismál.

137. mál
[16:59]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek eftir því að í þessu ágæta frumvarpi, sem ég styð, er talað um leigu í skamman tíma ef fólk hefur misst húsnæði sitt. Ég held að það væri allt í lagi að hafa það eitthvað neglt niður hvað er skammur tími. Væri forvitnilegt að fá að vita það hjá hv. formanni félagsmálanefndar. Ég hefði haldið að þetta þyrfti að vera til þriggja ára að lágmarki á sanngjörnu verði, þ.e. að leigan verði ekki of há. Við horfum upp á að lánveitendur eru tryggðir með belti og axlabönd og jafnvel bleyjur gagnvart lántakandanum. Ég vil endilega skoða hvort ekki er hægt að leyfa fólki að fara í séreignasparnaðinn til að bjarga sér út úr erfiðleikum ef það getur orðið til þess að hjálpa því.

Við í Frjálslynda flokknum höfum lagt fram frumvarp um stimpilgjöldin nú á haustdögum og leggjum til að þau verði felld alfarið niður, ekki tímabundið eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu, ég hefði viljað að menn skoðuðu það. Það eru 3.000 íbúðir lausar í dag á markaðnum og það gefur augaleið að leiguverð á öllu íbúðarhúsnæði mun lækka mjög skart á næstunni.

Síðan er það verðtryggingin sem mér finnst að þurfi að taka á og skoða hvort ekki er hægt að finna einhverjar leiðir út úr henni. Varðandi neyðarstofur í sveitarfélögum er það mjög gott, að koma því upp, (Forseti hringir.) og sjálfsagt mál að ríkið komi að því að hjálpa sveitarfélögum að hafa ókeypis mat í barnaskólum.