139. löggjafarþing — 23. fundur,  9. nóv. 2010.

störf þingsins.

[14:10]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Um síðustu helgi var boðað til þjóðfundar í Laugardalshöllinni þar sem fjallað var um stjórnarskrármál, og nýju stjórnlagaþingi sem kosið verður til fljótlega veitt veganesti til vinnu sinnar. Það er mál manna sem fylgdust með og sóttu þennan fund að hann hafi heppnast einstaklega vel og að vel hafi tekist til allra verka. Er það mjög vel og við fögnum því auðvitað öll.

Það eru hins vegar fleiri hliðar varðandi þennan ágæta þjóðfund. Í gær var upplýst á fundi allsherjarnefndar um kostnaðinn við hann. Það var upplýst að kostnaðurinn við þjóðfundinn væri 91,7 millj. kr. og hefur þá ekki verið tekið tillit til nefndaþóknana og ýmiss launakostnaðar sem til fellur vegna fundarins. 91,7 millj. kr. fyrir einn fund. Ég ætla náðarsamlegast að biðja þá sem hér eru að misskilja mig ekki þannig að ég sé að gagnrýna störf þeirra sem sóttu fundinn eða það starf sem þar fór fram en ég verð að segja að ég hafði eiginlega ekki hugmyndaflug til að ímynda mér að einn fundur sem stendur í einn dag gæti kostað íslenska skattgreiðendur tæpar 100 millj. kr. Maður hlýtur að velta fyrir sér hvort þeir sem að honum standa séu ekki komnir svolítið fram úr sér í kostnaðinum þegar þeir eru reiðubúnir að eyða tæpum 92 millj. kr. til slíkra fundarhalda í ljósi þess ástands sem er í samfélaginu, (Forseti hringir.) í ljósi þess niðurskurðar sem verið er að grípa til á öðrum sviðum og með hliðsjón af þeim biðröðum sem eru að myndast fyrir framan starfsstöðvar hjálparsamtaka þar sem fólk (Forseti hringir.) biður um mat. Ég held að hv. þingmenn ættu að velta þessu vandlega fyrir sér.