139. löggjafarþing — 23. fundur,  9. nóv. 2010.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[16:20]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Það er hluti af þessum tillögum sem ég er ósammála, það eru tillögurnar um breytingar á tekjuskattskerfinu, ég tel að það hefði verið til bóta að reyna að ná fram meiri jöfnuði með þeim tillögum sem voru lögfestar á síðasta þingi. Það er alltaf spurning hvað á að ganga langt í þeim efnum en varúðarljósin hafa ekki kviknað nærri því strax.

Sú tillaga að fara að lækka aftur skatta á hátekjufólk mun ekki leiða til neins efnahagsvaxtar. Sá vöxtur kemur fyrst og fremst frá láglaunafólki sem notar allar sínar aukakrónur í aukna neyslu.

Hvað varðar skattlagningu á fyrirtæki eins og skattkerfið er í dag þá borga þau einfaldlega þann skatt sem þeim hentar hverju sinni utan tryggingagjaldsins. Ég hef hugmyndir um mjög róttækar tillögur í þeim efnum, en hef ekki enn haft tíma til að setja þær niður á blað og velta þeim upp hér á þinginu, enda mundi ég gjarnan vilja ræða við fagfólk (Forseti hringir.) á því sviði fyrst.