139. löggjafarþing — 23. fundur,  9. nóv. 2010.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[16:25]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Það kom í ljós í viðræðum síðastliðið sumar þar sem þverpólitískur hópur var að ræða þessi mál að bankarnir höfðu fengið á bilinu 35–60% afslátt af skuldum heimilanna þegar það var fært á milli gömlu og nýju bankanna. Það er því nægilegt svigrúm til að færa niður skuldir heimilanna sem snúa að bönkunum án þess að þeir verði fyrir tapi af því. Fólk á það inni hjá þeim.

Ég nefndi áðan Avens-dílinn svokallaða. Lífeyrissjóðirnir ætla að rukka 100% af þessum skuldabréfum sem þeir fengu með um 30% afslætti. Það er algerlega ósiðlegt að þeir skuli voga sér að haga sér þannig. Þeir munu ekki verða fyrir nærri því eins miklu tjóni og talað er um. Þeir geta tekið inn þá litlu skerðingu sem þeir verða hugsanlega fyrir inn í lífeyrisgreiðslurnar í þrepum langt fram í tímann. Núverandi þiggjendur lífeyris frá lífeyrissjóðunum munu ekki finna fyrir því.

Þannig að það hefur verið hér í gangi mikill hræðsluáróður um þetta mál (Forseti hringir.) og vonandi náum við að leysa úr því á málefnalegum grundvelli. (Forseti hringir.) Á morgun er stóri dagurinn.