139. löggjafarþing — 23. fundur,  9. nóv. 2010.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[17:26]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Við breyttum skattkerfinu að hluta til á miðju ári 2009 og innleiddum hátekjuskatt sem var staðgreiddur, samtímagreiddur, og hann hefur strax tekjujöfnunaráhrif í kerfinu og kemur fram við álagningu ársins í ár.

Varðandi stærð svarta hagkerfisins í Danmörku er það auðvitað slæmt ef það er 17% þar. Það þætti sennilega ekki hátt hlutfall miðað við mat manna á Ítalíu og í Grikklandi og eru það þó ekki skattpíningarlönd, en það þekkja auðvitað allir þann vanda sem við er að glíma alls staðar. Það er ekkert kappsmál eða metnaðarmál hjá mér að vera með óskaplega háa skatta. Það sem er metnaðarmál hjá mér er að Ísland geti staðið undir nafni sem norrænt velferðarsamfélag. Það verður ekki gert nema lagðir séu til samneyslunnar nægjanlega traustir tekjustofnar til að hún sé eins og við viljum hafa hana. Það verður ekkert norrænt velferðarsamfélag rekið með amerískum skattahlutföllum. Það er bara ekki hægt. Við vorum á fullri ferð þangað, við erum snúin við, við erum á leiðinni aftur heim til Norðurlandanna og ég er mjög stoltur af því.