140. löggjafarþing — 23. fundur,  15. nóv. 2011.

þjóðgarður við Breiðafjörð norðanverðan.

238. mál
[16:27]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Hér er um að ræða áhugaverða tillögu til þingsályktunar sem ég held að sé rétt að ég fari nokkrum orðum um. Kannski örstutt fyrst um það sem hér kemur fram varðandi legu svæðisins eða staðsetningu þess þá liggur það að verndarsvæði Breiðafjarðar sem er þegar verndaður samkvæmt sérstökum lögum. Ég vil stinga því að flutningsmönnum tillögunnar til umhugsunar að rétt væri að skoða samhliða þessu endurskoðun þess verndarsvæðis, þ.e. að gera svæðið að sjávarþjóðgarði, sem er nokkuð sem við eigum ekki til. Þá þarf náttúrlega að kveða skýrar á um reglur en gert er í núgildandi lögum. Það mætti skoða.

Ég vil nefna annað sem er sú staðreynd að svæðið samkvæmt þingsályktunartillögunni nær langleiðina að svæði sem nú þegar er á náttúruverndaráætlun, sem nú þegar er verið að vinna að friðlýsingu á. Það er svæði sem hefur gengið undir heitinu Látrabjarg – Rauðisandur sem er gamli Rauðasandshreppur. En sveitarfélagið Vesturbyggð hefur nú lýst áhuga á því að fá að gera það svæði að þjóðgarði og hefur m.a. horft til Snæfellsjökuls- og Vatnajökulsþjóðgarðs í hugmyndafræðinni um uppbyggingu utan um svæðið. Vinna við stofnun þess þjóðgarðs er þegar komin af stað. Þar er um að ræða eins og vera ber í þessum efnum samstarfsverkefni sveitarfélagsins og Umhverfisstofnunar og auðvitað landeigenda, það er þetta þríhliða samtal sem þarf alltaf að fara fram. Það eru kjöraðstæður ef svo má segja í þessum efnum þegar frumkvæðið eða áhuginn kemur sérstaklega frá heimamönnum því að ella segir reynslan okkur að hindranirnar séu töluverðar í útfærslunni og framkvæmdinni. Náttúruverndaráætlun var samþykkt hér í þinginu með öllum greiddum atkvæðum hvað þetta varðar þannig að þingið hefur lýst yfir vilja sínum til friðlýsingar þessa svæðis. Þar er að vísu ekki rætt sérstaklega um þjóðgarð en það er það sem Vesturbyggð vill gera. Umhverfisstofnun hefur þegar ráðið landvörð á svæðið. Landvörðurinn hefur rætt við heimamenn um tillöguna og við höfum haldið borgarafundi, allnokkra fundi fyrir vestan og líka hér í Reykjavík. Ég vildi nefna þetta í samhengi við þessa tillögu vegna þess að hér er um að ræða nánast samliggjandi svæði, þ.e. annars vegar verndarsvæði Breiðafjarðar og hins vegar þetta svæði sem vonandi endar með stofnun þjóðgarðs.

Á svæðinu eru nokkur svæði sem þegar eru á náttúruminjaskrá, til að mynda norðurströnd Þorskafjarðar og fjörur í Djúpafirði. Þar er líka annað svæði sem er Kjálkafjörður, Kerlingafjörður og Skálmarnes vegna gróðurfars með skóglendi og fuglabjargs í Múlanesi. Hér er um að ræða svæði sem þegar eru á náttúruminjaskrá. Lagaleg staða þeirra svæða er veik en það má segja að þegar svæði eru á náttúruminjaskrá hafa þau samt sem áður ákveðna stöðu; búið er að kortleggja náttúrufar og mikilvægi svæðanna. Vatnsfjörður er friðlýstur nú þegar sem friðland í samræmi við lög um náttúruvernd. Svo má nefna það sérstaklega að í skýrslu umhverfisráðuneytisins, sem er skýrsla frá því fyrir nokkrum árum um íslenska birkiskóga, er Teigsskógur við Þorskafjörð á lista yfir skóglendi sem eru mikilvæg út frá náttúruverndarsjónarmiðum og er talinn upp sem einn af upprunalegum birkiskógum á Íslandi sem mætti gera ráð fyrir að verðskulduðu sérstaka vernd.

Ég vildi, virðulegur forseti, gera grein fyrir þessum sjónarmiðum. Nú er verulegur og vaxandi áhugi fyrir náttúruvernd og umhverfisáherslum á þessu svæði, allt frá Snæfellsnesi með sinni Green Globe-vottun á sínum tíma sem núna heitir EarthCheck. Sveitarfélögin á Snæfellsnesi eru að undirbúa það sem þau vilja kalla svæðisgarð, sem er nokkurs konar vinnuheiti hjá þeim en í raun algjörlega ný nálgun að því er varðar svæðisskipulag þar sem tekið er til sjálfbærrar nýtingar náttúruauðlinda, uppbyggingar atvinnulífs og mannlífs á svæðinu í sátt við náttúru og umhverfi. Þetta er nokkuð róttæk og nútímaleg nálgun hjá sveitarfélögunum við Snæfellsnes. Svo er það staða Breiðafjarðar og þeirra svæða sem hér hafa verið nefnd innan þess svæðis sem er undir í tillögu hv. þingmanna og verndarsvæða sem þegar liggja fyrir á Vestfjarðakjálkanum. Sveitarfélögin á Vestfjörðum hafa líka öll lýst yfir áhuga á því að fara í einhvers konar vottunarferli sem mundi ljúka með sjálfbærnivottun sveitarfélaganna. Þetta eru sveitarfélögin á þessum svæðum að skoða í sífellt ríkari mæli sem leið til sóknar í landsfjórðungnum. Því ber að fagna sérstaklega. Einhver róttækur sagði við mig á fundi vestur á Patreksfirði að réttast væri að gera allan kjálkann að þjóðgarði.

Í því samhengi má nefna, vegna þess að hér er farið aðeins yfir flokkun þjóðgarðsins að því er varðar flokkun Alþjóðanáttúruverndarsamtakanna, að samkvæmt flokkun þeirra fellur þjóðgarður undir flokk 2, þ.e. verndun vegna landslags, lífríkis eða menningarminja. Í þjóðgörðum ber að vernda svæðið með öllum sínum gæðum og heimila almenningi að njóta þess eftir ákveðnum reglum. Það mælir auðvitað ekkert á móti því að innan friðlands, sem gæti orðið þjóðgarður, sé um mismunandi verndarstig svæða. Ég vil nefna af því að hér er aðeins verið að tala um IUCN-flokkun, sem er þessi flokkun Alþjóðanáttúruverndarsamtakanna, að í flokki 1 sem er sá flokkur sem krefst mestrar verndar, 1A, er yfirleitt heimiluð afar takmörkuð umferð og oftast bara bundin við vísindamenn. Dæmi um það eru Eldey og Surtsey. Við höfum líka séð dæmi um IUCN-flokkun að í flokki 5 er heimiluð ýmiss konar starfsemi, jafnvel búseta til sveita og í bæjum og jafnvel þéttbýlisstöðum. Í hvítbók um ný náttúruverndarlög gerum við tillögu um að þetta flokkunarkerfi verði aðlagað algjörlega íslenskum friðlýstum svæðum.

Það mælir í sjálfu sér ekkert gegn því að svæði af þessu tagi sé þannig samansett að verndarstig sé mjög mismunandi, innan svæðisins sé jafnvel mismunandi regluverk og mismunandi friðlýsingarskilmálar. Ég vil nefna það til að mynda þar sem í gangi hafa verið samskipti við einstök sveitarfélög vegna friðlýsinga í fjöru og til sjávar að í friðlýsingarskilmálunum hefur verið fólgin möguleg uppbygging að því er varðar samgöngumannvirki og því um líkt. Það er ekkert sem mælir á móti því að það sé hluti af friðlýsingarskilmálum. Það gætir oft misskilnings þegar rætt er um friðlýsingar og friðlýsingarskilmála að það þýði að umferð sé óheimil um svæðið. Þegar þjóðgarðar eru annars vegar er það alveg klárt að þá fara saman þessir tveir þættir, sem eru annars vegar verndun á forsendum náttúru og hins vegar sá áskilnaður að stjórnvöld axli ábyrgð á því að tryggja aðgang almennings að svæðinu eftir ákveðnum reglum og veiti upplýsingar og fræðslu um náttúruna og umhverfið. Þessir þættir þurfa að haldast í hendur þegar þjóðgarður er annars vegar. Þetta höfum við verið að glíma við að því er varðar Vatnajökulsþjóðgarð og hefur gengið vel með nýrri verndaráætlun. Í Snæfellsjökulsþjóðgarði fer fram mikið og öflugt fræðslustarf og kynningarstarf þannig að þessir tveir þættir hanga alltaf saman.

Virðulegi forseti. Ég vildi helst í ræðu minni koma að þeim sjónarmiðum sem varða aðliggjandi svæði og jafnframt svæði sem eru innan þeirrar heildar sem er til umfjöllunar í tillögu hv. þingmanna.