140. löggjafarþing — 23. fundur,  15. nóv. 2011.

þingsköp Alþingis.

27. mál
[18:22]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að draga þessa umræðu neitt á langinn en ég get ekki látið hjá líða að lýsa því hér að ég er eindreginn stuðningsmaður þessa máls, enda ein af flutningsmönnum þess. Ég segi það alveg einlæglega að ég er líka eindreginn stuðningsmaður þess að minni hluti þingmanna, einn þriðji hluti þingmanna geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um lagafrumvörp sem hafa verið samþykkt.

Ég tel hins vegar ekki, eins og þeir tveir hv. þingmenn sem töluðu á undan mér, að það séu órjúfanleg tengsl á milli þessara tveggja atriða. Ég tel svo ekki vera, það er mín skoðun. Ég held að árangur af málþófi sé sjaldnast mikill og ef við ætlum að fara eftir skilgreiningu hv. þm. Péturs H. Blöndals á því hvenær hann hefur verið í málþófi, hann segir að það hafi verið þegar hann var farinn að halda innihaldslausar ræður, þá getum við kannski sagt að það sé málþóf hér alla daga.

Ég held einmitt — og nú ætla ég ekki að vera dónaleg því að það eigum við ekki að vera í þessum stól frekar en annars staðar — að það séu oft haldnar innihaldslausar ræður hér vegna þess að ræðutíminn er svo rúmur. Ef honum væru settar einhverjar skorður mundum við öll vanda okkur betur. Við vorum, nefndarmenn í utanríkismálanefnd, á ferðalagi síðustu vikuna í september og komum í finnska þingið og fengum þar leiðsögn. Þar var útskýrt fyrir okkur að þingmenn sætu í þingsætum sínum og töluðu þaðan nema þeir ætluðu að tala lengur en í þrjár mínútur, þá færu þeir í pontu og töluðu aldrei lengur en í 15 mínútur. Samt er ekki sagt að það megi bara tala í 15 mínútur og við spurðum: Talar fólk þá aldrei lengur? Þá sögðu menn: Nei, þetta er fullorðið fólk. Það voru svörin sem við fengum við því. Þetta var í finnska þinginu. En ef menn fara eitthvað út af sporinu er hægt að banna þeim að tala um efnið. Og lengsta málþóf sem þeir töluðu um var þegar rætt var um inngöngu Finna í Evrópusambandið, þá talaði einhver þingmaður samtals í átta tíma í umræðunni, ekki í striklotu en hann náði að tala í átta tíma. Þetta var í minnum haft. En við vitum að þetta er öðruvísi hér. Ég held einmitt að afleiðing af því að slíkar reglur eru ekki hér sé að við eyðum oft tíma hvers annars að ástæðulausu í innistæðulausar ræður. Þess vegna ætla ég að þakka hv. þm. Siv Friðleifsdóttur fyrir að flytja þetta frumvarp og hafa forustu fyrir því og tefja ekki tímann umfram það.