141. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2012.

breytingar á jafnréttislöggjöf.

135. mál
[16:37]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég tel að reynslan sýni okkur að ráðherrum, hvaðan úr flokki sem þeir koma, reynist erfitt að uppfylla þau skilyrði og þær reglur sem jafnréttislöggjöfin segir okkur að eigi að gilda hér á landi. Virðist þar alveg sama hvort um er að ræða ráðherra sem hafa yfirlýst markmið um að vinna að umbótum í jafnréttismálum eða ekki.

Mér finnst líka nauðsynlegt að fram komi í umræðunni að núverandi ríkisstjórn hefur ekki tekist að ráðast að þeim mikla vanda sem birtist okkur í kynbundnum launamun og ég hef miklar áhyggjur af því. Ég tel að við öll sem hér störfum eigum að einbeita okkur að því nú í vetur að skýra það hvers vegna ekki hefur tekist betur til en dæmin sanna að taka á óútskýrðum kynbundnum launamun.