143. löggjafarþing — 23. fundur,  18. nóv. 2013.

tengivegir og einbreiðar brýr.

154. mál
[15:52]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég get að sjálfsögðu tekið undir áhyggjur margra sem hér hafa komið fram um það að viðhald á vegakerfinu er komið í mjög hættulega litlar fjárhæðir. Menn hafa reynt að spara sér það á þessum erfiðustu tímum undanfarin ár, og bágt ástand tengivega og einbreiðar brýr eru vandamál sem við vitum að er enn talsvert verk að vinna gagnvart.

Ég held þó að hv. stjórnarliðar verði kannski að líta sér aðeins nær í þessum orðaskiptum, vegna þess að svo háttar til að á borðum okkar er fjárlagafrumvarp þar sem gert er ráð fyrir þeirri nýbreytni að Vegagerðin skili í ríkissjóð á næsta ári yfir 1,3 milljörðum af mörkuðum tekjum sínum. Það mundi nú muna um það hjá hæstv. innanríkisráðherra og öðrum áhugamönnum um viðhald og tengivegi ef Vegagerðin fengi þó að halda sínu eigin aflafé óskertu á næsta ári upp á 1,3 milljarða rúma í plús, auk þess sem ýmsar stórar framkvæmdir eru teknar inn á almennt vegafé sem áform höfðu verið um að fjármagna sérstaklega, eins og uppbygging innviða tengd Bakka.

Ég held að það sé ekki hægt annað en að einhver taki að sér að nefna þetta inn í þetta samhengi, inn í þessa mærðarumræðu hér. Það á að skerða markaðar tekjur Vegagerðarinnar um rúmlega (Forseti hringir.) 1,3 milljarða kr. á næsta ári og það mun einhvers staðar koma við.