144. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2014.

störf þingsins.

[15:15]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar að vekja athygli á því að það er engin skammtímavistun fyrir fatlað fólk á Vesturlandi þótt lög kveði á um að hún skuli standa til boða. Á þessu ári hefur ekki verið starfrækt úrræði sem kallað var skammtímavistun fyrir fatlaða einstaklinga á Vesturlandi.

Í lok síðasta árs var þessari starfsemi hætt, bæði í Holti í Borgarfirði og á Gufuskálum á Snæfellsnesi, þar sem hún var starfrækt um árabil. Þegar fjárveitingar í málaflokkinn frá ríkinu til sveitarfélaga á Vesturlandi reyndust ónógar var gripið til þess ráðs að loka þessari skammtímavistun. Foreldrar og forráðamenn barna og ungmenna sem nutu þess að dvelja í Holti og á Gufuskálum mótmæltu því að skammtímavistunin væri lögð niður en án árangurs. Lokunin var hluti af umfangsmiklum niðurskurði sem starfshópur innan Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi vann að árið 2013.

Í ályktun sem fulltrúafundur Þroskahjálpar samþykkti á mánudaginn segir, með leyfi forseta:

„Það að heilu þjónustusvæðin leggi niður lögbundna þjónustu á þeim forsendum að ekki fáist nægilegt fé til rekstrar er forkastanlegt.“

Ég tek heils hugar undir það. Í þessum málum gagnrýnir líka Þroskahjálp velferðarráðuneytið fyrir viðbrögð í málinu. Það vekur spurningar um hvaða réttarvarna fatlað fólk og fjölskyldur þeirra geti vænst. Hæstv. félagsmálaráðherra ber ábyrgð á þessum málaflokki og hún verður að taka á þessu máli. Við vitum að það hafa verið deilur um hvort nægt fé hafi fylgt málefnum fatlaðra, en við megum ekki láta það verða til þess að (Forseti hringir.) hagsmunir þessa fólks séu bornir fyrir borð.