144. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2014.

störf þingsins.

[15:20]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Herra forseti. Innan skamms verða verðtryggð húsnæðislán leiðrétt og því ber að fagna. Á sumarþingi 2013 samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu um aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna. Það sem ég vil draga fram í dag er að samþykkt tillaga er í tíu liðum. Leiðréttingin sjálf er aðeins einn liður af þessum tíu.

Ég verð að segja að mér finnst dálítið einkennilegt að heyra suma hv. þingmenn sem kenna sig við jöfnuð og réttlæti tala þessa aðgerð niður, gera hana jafnvel tortryggilega. Það er eiginlega bara sorglegt. Þetta gera jafnvel sömu þingmenn og vildu fara í slíkar aðgerðir á síðasta kjörtímabili en án árangurs. Hvað hefur breyst? Eru menn heiðarlegir í málflutningi sínum eða ástunda þeir lélega pólitík? Spyr sá sem ekki veit.

Sannleikurinn er sá að vel hefur gengið að vinna samkvæmt aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar. Í henni kemur meðal annars fram að skipa eigi verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála. Sú vinna gekk vel og mun hæstv. húsnæðismálaráðherra leggja fram fjögur frumvörp þess efnis á þessu þingi. Árum saman hefur nýtt húsnæðiskerfi verið til umræðu og menn verið sammála um að þörf sé á að endurskipuleggja það, ekki síst með tilliti til leigjenda. Loksins er eitthvað áþreifanlegt að gerast í þeim efnum og því ber að fagna.

En aftur að leiðréttingunni, ég er mjög stolt af því að tilheyra þeim hópi þingmanna sem hefur barist fyrir heimilin í landinu. Rökin fyrir leiðréttingunni eru bæði sanngirnisrök og efnahagsleg rök. Í kjölfar bankahrunsins haustið 2008 var ráðist í stórar efnahagsaðgerðir. Skuldir fyrirtækja voru færðar að því sem greiðslugeta þeirra sagði til um og gengistryggð lán voru endurreiknuð vegna dóma Hæstaréttar. Þá hafa fjármagnseigendur verið í sterkri stöðu þar sem skuldarar bera verðbólguáhættuna vegna verðtryggingar. Þeir sátu eftir sem skulduðu verðtryggð lán á meðan holskeflan reið yfir. (Forseti hringir.) Það er hvorki réttlátt né sanngjarnt og nú, sex árum síðar, (Forseti hringir.) njóta heimilin í landinu loksins sanngirni.