144. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2014.

fjármögnun byggingar nýs Landspítala.

25. mál
[17:43]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Það er nú sem betur fer þannig að aðeins hefur þokast í málefnum Landspítalans. Nú er ekki lengur spurt hvort þurfi að byggja nýjan spítala heldur hvenær og hvernig. Deilan hefur staðið í mörg ár. Það var rifist um staðsetningu. Það tókst meira að segja að koma upp þeirri hugmynd að þetta yrði sérstaklega gert fyrir Reykjavík frekar en fyrir landið allt, en sem betur fer er það allt að baki. Nú er spurningin hvenær og hvernig.

Hvað varðar fyrri spurninguna um hvenær þá held ég að málið horfi einfaldlega þannig við, virðulegi forseti, að ekki sé hægt að bíða lengur. Það þarf að byrja að byggja. Það er búið að ákveða hvar á að byggja og það þarf að byrja að byggja. Öryggi sjúklinganna er í húfi.

Í síðustu viku þurfti að loka smitsjúkdómadeild Landspítala – háskólasjúkrahúss vegna sýkinga. Það þurfti að loka heilli deild, einni af mikilvægustu deild spítalans þó að þær séu auðvitað allar mikilvægar.

Virðulegi forseti. 8 þús. sjúklingar sýkjast á Landspítalanum á hverju ári. Það kom fram hér áðan að 86% sjúklinga deila snyrtingu með öðrum sjúklingum. Auðvitað er mikið öryggisatriði að betur sé búið að sjúklingum á þessu sviði.

Í þeim teikningum sem liggja fyrir er t.d. gert ráð fyrir að öll lyf verði skömmtuð með róbótum, virðulegi forseti, sem sagt vélskömmtuð, og merkt hverjum sjúklingi. Öryggið sem fylgir því að mannshöndin komi þar ekki að heldur sé þetta allt forritað í vélum er slíkt að ég held að það sé erfitt að setja það í orð.

Annað sem á t.d. að vera í þessari nýju byggingu er þvottastöð fyrir rúm. Þegar kæmu nýir sjúklingar færu öll rúm í gegnum sérstaka þvottastöð. Við getum rétt ímyndað okkur hvað þetta þýðir fyrir sýkingarhættu og annað sem getur borist, það yrði miklu öruggara, og svo allur vinnukrafturinn sem fer í það núna þegar öll rúm eru handþvegin inni á sjúkrastofum. Þetta eru tvö lítil dæmi um þær breytingar sem verða.

Í síðustu viku, virðulegi forseti, var ég á fundi hjá Krabbameinsfélaginu. Þar var skýrt frá því að á nokkrum árum hefðum við færst frá því að standa okkur best í krabbameinslækningum á Norðurlöndum yfir í að vera öftust. Auðvitað höfum við gengið í gegnum hræðilegar efnahagslegar þrengingar og kannski var ekki hægt að ætlast til þess að við gætum haldið þessu efsta sæti, en á hinn bóginn gerir húsakosturinn það að verkum að við komum ekki PET-skanna, sem er mikilvægt tæki, fyrir í húsnæðinu. Fólk er sent héðan, margir á ári, til útlanda til að geta notast við þessa tækni.

Það vantar sérfræðinga í krabbameinslækningum og í öðrum lækningum líka. Það má ekki líta fram hjá því að starfsaðstaðan, sem læknum býðst hér og sérfræðingum sem hafa verið í mörg ár í útlöndum til að fullnuma sig, hlýtur að skipta miklu máli. Auðvitað skipta launin líka máli, en ef það er ekki hægt að bjóða fólki almennilega starfsaðstöðu er hætta á að það komi ekki heim eftir nám.

Virðulegi forseti. Ég lýsi áhyggjum mínum — ég nota orðið áhyggjur — yfir því viðhorfi sem kom fram í ræðu hæstv. heilbrigðisráðherra hér í vor, nánar tiltekið 28. apríl, þegar hann sagði, með leyfi forseta:

„Ég hef lýst því yfir sjálfur að við förum ekki að hagræða í starfsemi heilbrigðisþjónustunnar á Íslandi upp á 2, 3, 4 milljarða til að greiða af afborgun lána við þetta verkefni.“

Virðulegi forseti. Sá sem gefur yfirlýsingu af þessu tagi er á þvílíkum villigötum. Hagræðið af því að sameina alla starfsemina á einn stað er augljóst og hefur verið reiknað að sé 2,6–3 milljarðar á ári. Þá koma menn og segja: Já, en það vantar peninga inn í spítalann. — Það er alveg rétt, en þá vantar bara meiri peninga til að bæta þjónustuna. Ætlum við að skófla inn nokkrum milljörðum til að henda í þá óhagkvæmni sem þarna er? Það er eiginlega óskiljanlegt að menn sjái ekki að af þessu verður sparnaður, jafnvel þó að við ætlum síðan að greiða meira inn í spítalann til þess að bjóða þar betri þjónustu miðað við ástandið.

Virðulegi forseti. Einhver nefndi það hér áðan að það væri ólíklegt að nefnd kæmi einhverju í gegn þar sem meiri hluti nefndarmannanna væru stjórnarandstæðingar. Ég held að það sé mjög einfalt að breyta samsetningu nefndar ef það er eitthvert trúaratriði að stjórnarmeirihlutinn hafi meiri hluta í nefndinni. Ég er eiginlega að vona það, virðulegi forseti, að þessi nefnd verði óþörf. Ég er flutningsmaður þessarar tillögu en ég vona samt að hún verði óþörf vegna þess að ríkisstjórnin komi á næstu dögum með tillögu um hvernig eigi að fjármagna spítalann. Eins og komið hefur fram hjá nokkrum ræðumönnum hér á undan þá erum við að tala um lágar upphæðir í heildarsamhengi ríkisfjármálanna.