145. löggjafarþing — 23. fundur,  20. okt. 2015.

staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.

229. mál
[17:20]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Forseti. Við ræðum frumvarp til laga um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni og ég vil nota tækifærið til að þakka fyrir umræðuna svo langt sem hún nær hingað til. Hún hefur fyrst og fremst varpað ljósi á það hversu flókið og margslungið viðfangsefnið er en ekki síður hefur hún varpað fram mjög áleitnum spurningum um það af hverju við erum stödd þar sem við erum stödd, þ.e. af hverju í ósköpunum erum við að fjalla um frumvarp af þessu tagi? Af hverju í ósköpunum erum við að fjalla um að lögbinda það að leyfa staðgöngumæðrun á Íslandi þegar löndin í kringum okkur hafa ekki komist að þeirri niðurstöðu að það sé gott? Af hverju erum við í þeirri stöðu þrátt fyrir að siðferðilegum spurningum hafi enn ekki verið svarað að horfast í augu við það að hér sé stjórnarfrumvarp sem væntanlega þarf að fjalla um og sem þarf að fara sína leið í þinglegri meðferð? Um þetta hefur verið fjallað og farið yfir ítarlega.

Mig langar sérstaklega að nefna þrjú atriði sem varða öll stóru línurnar í málinu, ef svo má að orði komast. Ég held að mjög mikilvægt sé að missa ekki sjónar á því um hvað þetta snýst í stórum dráttum, ekki aðeins útfærslurnar og tæknileg atriði, einhverjar nefndir og slíkt, heldur hvað það er sem við erum að fjalla um. Mér finnst við í meginatriðum vera að fjalla um þrennt.

Í fyrsta lagi er sú togstreita sem mannskepnan þarf að eiga í oft og iðulega frammi fyrir tækniframförum og þá vil ég leyfa mér að setja „framfarir“ í gæsalappir, þ.e. þá tilhneigingu manneskjunnar að vilja gera það sem tæknin leyfir henni áður en hún fer í gegnum þær siðferðilegu spurningar sem tæknin felur í sér. Þannig er tæknin stundum komin langt á undan okkur sjálfum. Við erum komin svo langt í alls konar tilraunastarfsemi með mannslíkamann og tilveru okkar löngu áður en við höfum botnað það hvort við séum á réttri leið og hvort við séum með einhverju móti að missa sjónar á því hvers virði það er að vera til, hvers virði það er að vera manneskja. Það kann að vera að í máli eins og þessu séum við miklu nær kjarnanum í mannlegri tilvist en í mörgum öðrum málum sem við erum að fjalla um hér. Það skiptir máli að við missum ekki sjónar á því. Þetta er punktur númer eitt; af því að það er hægt þá gerum við það og af því að við gerum það þá þurfum við að búa til löggjöf um það. Það er sú röksemd sem ég hnýt um og fleiri hafa nefnt.

Stóra atriðið númer tvö, sem hefur líka verið rætt hér, er spurning um rétt til að eiga börn og rétt til að eiga fjölskyldu og rétt til að vera partur af slíku samhengi. Það getur aldrei talist réttur í þeim skilningi að það megi láta tilganginn helga meðalið, að allar leiðir séu réttlætanlegar til að eignast börn, heldur þurfum við að halda meðvitund okkar frammi fyrir siðferðilegum álitamálum þar eins og frammi fyrir hinum tæknilegu.

En mig langar, forseti, að staldra helst í ræðu minni við hin femínísku sjónarmið, þ.e. þau sjónarmið hvernig við lítum á konur og karla og hvernig þetta frumvarp kemur við þá umræðu, við kynjakerfið og mismunandi stöðu kynjanna og ekki aðeins í þessu landi, þar sem staða kvenna er mælanlega sterkari en víðast hvar í heiminum, heldur alls staðar. Það kerfisbundna misrétti sem er að finna í öllum löndum, öllum stéttum, öllum samfélagshópum og snýst um kyn, snýst um þá kerfisbundnu stöðu að karlar séu yfirsettir konum. Og þá er ég að tala um kerfi. Ég er ekki að tala um einstaklinga, ég er að tala um kerfi. Ég er að tala um samfélag eins og það sem við byggjum á Íslandi þar sem við erum með sérstakan stað sem rekinn er af grasrótarhreyfingum og snýst um að koma konum í skjól undan ofbeldi heima hjá sér, að verja þær fyrir ofbeldi heima hjá sér. Ég er að tala um samfélag sem er komið lengst í heiminum í jafnréttismálum en það er annar staður sem heitir Stígamót, sem er fyrst og fremst staður fyrir konur sem hefur verið nauðgað eða hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi og þurfa að leita sér hjálpar og stuðnings og leiða til að vinna úr þeim erfiðleikum.

Þessir staðir snúast ekki um að hjálpa einstaklingum. Þessir staðir snúast um að taka á kerfisbundnu meini, að taka á meini sem gegnsýrir samfélag okkar þótt það sé langt komið í jafnréttismálum. Þetta sama samfélag býr líka við kynbundinn launamun, býr við þá stöðu að konur eru undirsettar körlum á vinnumarkaði og þá erum við ekki farin að tala um mismunandi stöðu kvenna í fjölmiðlum, gagnvart valdastofnunum samfélagsins, atvinnulífinu eða öðrum þeim opinberu þáttum. Ég segi að daginn sem við getum lokað Kvennaathvarfinu, daginn sem við getum lokað Stígamótum, daginn sem jafn margar konur og karlar eru við völd í samfélaginu, daginn sem launamunur kynjanna hefur verið upprættur, daginn sem kynjajafnrétti hefur verið náð, þá skulum við kannski setja frumvarp um staðgöngumæðrun á dagskrá. Fyrr er það ekki hægt vegna þess að frumvarp um staðgöngumæðrun snýst um að freista þess að skrifa í lög í raun og veru eitt æðsta stig hlutgervingar kvenna. Það er varla hægt að ganga lengra í því að hlutgera konur en með því að lögbinda æxlunarfæri þeirra, að skrifa niður í lagabókstafinn hvernig þær eigi og hvernig eigi að nýta legið, æxlunarfærin til að ná markmiðum einhverra annarra. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Hlutgervingin er eitt erfiðasta viðfangsefni femínista að glíma við vegna þess að það er ósýnilegt svo víða, það gegnsýrir samfélagið alls staðar, það er það sem stelpurnar okkar eru að glíma við.

Með umsögn Femínistafélags Íslands um þingsályktunartillögu um staðgöngumæðrun á 140. þingi fylgdi aldeilis frábær grein eftir sænska fræðikonu, sænskan femínista sem heitir Kajsa Ekis Ekman, sem ég ráðlegg öllum þingmönnum að lesa því að þar er þetta orðað með afar skýrum hætti. Hún segir, með leyfi forseta og í þýðingu Drífu Snædal:

„Er þetta einfalt mál? Nei. Látum við undan þrýstingi? Já, statt og stöðugt. Markmiðið á samt alltaf að vera hið sama, annars getum við jarðað jafnréttisbaráttuna strax. Er það ekki annars grunnurinn að jafnréttisbaráttunni, að konur eigi ekki að vera verkfæri í höndum annarra, hvort sem það eru feður, makar, Vatíkanið, einmana karlar, karlar með völd, valdalausir karlar eða ófrjóar konur? Við eigum að lifa kynlífi þegar við viljum sjálfar og eignast börn þegar við þess óskum. Við erum ekki vélar, við erum ekki náttúruauðlindir. Andstaðan við staðgöngumæðrun snýst einfaldlega um rétt okkar til að vera heilar manneskjur.“

Þessi texti, sem snýst um og byggir á femínískri greiningu, er mjög tilfinningaþrunginn. Hann er tilfinningaþrunginn vegna þess að hann kemur við kjarnann í því sem kynjajafnréttisbaráttan snýst um. Þess vegna er frumvarp til laga um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni ekki venjulegt pólitískt viðfangsefni og ekki tæknilegt viðfangsefni og ekki viðfangsefni sem hægt er að fjalla um eins og hvert annað pólitískt álitamál, heldur viðfangsefni þar sem við værum að taka stórt skref aftur á bak í baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna. Það er skref sem ég get ekki horft á að upplýst Alþingi Íslendinga eigi eftir að taka og allra síst Alþingi Íslendinga sem er svo nálægt því að það hefur aldrei verið nær því að vera jafn skipað körlum og konum. Slíkt Alþingi getur ekki í landi sem er lengra komið en önnur lönd í heiminum í kynja- og jafnréttismálum afgreitt frumvarp til laga um hlutgervingu kvenna.