149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

breyting á ýmsum lögum vegna afnáms ákvæða um uppreist æru.

222. mál
[21:35]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka ráðherra svarið. Það er gott að heyra að ég hef kannski oftúlkað orð hennar hér fyrr í kvöld. Eftir stendur samt það sem hefur komið fram hjá nokkrum þingmönnum í umræðunni að þetta er mögulega svona þröng nálgun á málið. Eins og einhver sagði hefur verið farið í gegnum lagasafnið og fundinn hver sá staður þar sem talað er um óflekkað mannorð eða tengd hugtök og þeim er skipt út fyrir eitthvað sem er hlutlægari mælikvarði.

Hér hefur líka verið bent á ýmsar stéttir sem mögulega ættu heima undir svona regnhlíf, t.d. fólk sem starfar með börnum, hvort sem það eru kennarar eða fólk í æskulýðsstarfi og ýmsar aðrar starfsstéttir.

Nú er allsherjar- og menntamálanefnd svo heppin að hún býr við aðra verkaskiptingu en ráðuneytin þannig að ég held að nálega allar stéttir sem mögulega gætu átt hér undir heyri undir allsherjar- og menntamálanefnd, hvort sem það eru stéttir sem vinna með börnum eða hvað það nú var, sem er stolið úr mér, í það minnsta held ég að við í allsherjar- og menntamálanefnd höfum mögulega frjálsari hendur með það en ráðuneytin sem eiga það til að vera aðeins múraðri af.

Mig langar því að velta því upp með ráðherra hvort við ættum kannski að nálgast þetta plagg sem mjög góð fyrstu drög að einhverju sem við gætum mögulega víkkað út. Og hvort tíminn sem er fram undan að áramótum sé ekki bara ágætlega til þess fallinn að ná að loka þessu máli svo vel sé, þannig að við náum utan um allar þær áhyggjur sem hafa komið fram, ekki bara í umræðunni í kvöld heldur líka fyrir ári þegar við vorum að tala um þetta í miklu víðara samhengi.