151. löggjafarþing — 23. fundur,  19. nóv. 2020.

desemberuppbót lífeyrisþega.

[10:59]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum oft þessar skerðingarreglur almannatryggingakerfisins út frá ólíkum sjónarhornum. Mín ábending í þeirri umræðu er að jafnaði alltaf sú sama, að þessar reglur eru til að tryggja að takmarkað fjármagn rati helst til þeirra sem eru í mestri þörf. Við getum síðan rætt um hvort kerfið í heild sinni yrði sanngjarnara. Hv. þingmaður spyr hvað mér þyki almennt út frá pólitísku sjónarmiði um slíkar skatta- og skerðingarreglur. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að hjálpa fólki til sjálfshjálpar, að of miklar skerðingar dragi úr vilja fólks til að bjarga sér sjálft, t.d. að sækja sér aukatekjur með vinnu til að draga úr þörfinni fyrir annan stuðning.

Ef skerðingarreglurnar eru of grimmar held ég að þær muni verka letjandi. Ég held að það megi alveg halda því fram að þegar við erum að dansa með skerðingarmörkin á þessu bili sem við höfum verið, sem hefur verið frá 38,5% upp í 40% og jafnvel upp í 45%, og svo höfum við verið með dæmi um sérstaka stuðningsflokka, eins og sérstöku framfærsluuppbótina sem til skamms tíma var með krónu á móti krónu skerðingu, þá held ég að við séum að bjóða heim hættunni á ákveðinni bjögun. Hver hefur ekki heyrt dæmi um fólk sem reynir að útvega sér starf þannig að tekjurnar séu ekki gefnar upp þannig að þær muni ekki hafa áhrif á réttindi í kerfinu? Það er staðreynd sem við verðum að viðurkenna og horfast í augu við.

Hér er spurt sérstaklega um jólabónusinn. Við þurfum bara að ákveða hvað við ætlum að ráðstafa háum fjárhæðum í sérstöku desemberuppbótina og fara yfir það hvernig hún skilar sér, til þess að geta svarað þessari spurningu. En mín skoðun er eftir sem áður sú að það er auðvitað best að það skili sér sem mest til þeirra sem hafa minnst.