151. löggjafarþing — 23. fundur,  19. nóv. 2020.

varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum.

311. mál
[15:06]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum, nr. 49/1997. Frumvarp þetta var unnið í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu að höfðu samráði við Veðurstofu Íslands. Einnig hefur verið unnið með ábendingar frá ýmsum aðilum, einkum frá Veðurstofunni, sveitarfélögum, lögregluembættum og umboðsmanni Alþingis. Áform um lagasetninguna og frumvarpsdrög voru birt í samráðsgátt stjórnvalda til kynningar og athugasemda.

Reglulega minna atburðir okkur á þá vá sem stafað getur af völdum ofanflóða. Aukin áhersla hefur verið lögð á varnir gegn ofanflóðum eftir fárviðrið sem gekk yfir landið í árslok 2019 og snjóflóðið á Vestfjörðum í byrjun þessa árs. Í kjölfar þess skipaði ríkisstjórnin átakshóp um uppbyggingu innviða, m.a. í þeim tilgangi að flýta uppbyggingu ofanflóðamannvirkja á hættusvæðum í byggð.

Á grundvelli tillagna fyrrnefnds átakshóps er gert ráð fyrir verulegri aukningu til ofanflóðavarna og eflingar vöktunar og styrkingar stjórnsýslu í fjármálaáætlun 2021–2025 sem nú er til umræðu hér í þinginu. Frá og með árinu 2021 er gert ráð fyrir tæplega 2,7 milljörðum kr. árlega til varna gegn náttúruvá og er það árleg aukning um 1,6 milljarða kr. frá því sem nú er. Er markmiðið að uppbyggingu ofanflóðavarna verði lokið árið 2030.

Auk uppbyggingar varnarvirkja er mikilvægt að huga að því regluverki er varðar varnir gegn ofanflóðum. Frumvarpi þessu er einkum ætlað að auka skýrleika laga um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum með hliðsjón af reynslunni við framkvæmd laganna.

Í frumvarpinu er gerð tillaga að markmiðsákvæðum sem byggjast á markmiðum þeim sem lágu að baki upphaflegri lagasetningu, og fram koma í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 49/1997, um að tryggja öryggi fólks á heimilum sínum með tilliti til hættu á ofanflóðum.

Skerpt er á því í frumvarpinu að eftirlitsskyldur Veðurstofu Íslands með landfræðilegum og veðurfarslegum aðstæðum, með tilliti til hættu af ofanflóðum, nái til þéttbýlis, þó að starfsemi Veðurstofunnar geti náð til alls landsins. Þá er tiltekið að eftirlit með hættu á ofanflóðum á skipulögðum skíðasvæðum sé á ábyrgð rekstraraðila þeirra, sem er í samræmi við reglugerð nr. 636/2009 um hættumat vegna snjóflóða á skíðasvæðum, og í samræmi við hvernig þeim málum er háttað víða erlendis.

Lagt er til að við lögin verði bætt ákvæði um endurskoðun hættumats eftir að ofanflóðavarnir hafa verið reistar og lagðar til tilteknar takmarkanir í tengslum við skipulag á óbyggðum svæðum. Einnig er gert ráð fyrir að lögfest verði sú skipting hættusvæða í áhættuflokka sem kveðið er á um í reglugerð nr. 505/2000 um hættumat vegna ofanflóða og flokkun og nýtingu hættusvæða. Þá er lögð til breyting til samræmis við ákvæði laga um almannavarnir, nr. 82/2008, hvað varðar breytt hlutverk almannavarnanefnda.

Í frumvarpinu er lagt til að lögfest verði sú meginregla sem fram kemur í reglugerð að varnir og uppkaup húseigna nái fyrst og fremst til íbúðarhúsnæðis eða húsnæðis sem varnarframkvæmdir hafa áhrif á. Í samræmi við framkvæmdina er einnig lagt til að lögfest verði sú regla að þinglýsa beri kvöð um nýtingartíma vegna snjóflóðahættu hafi húseign verið keypt eða tekin eignarnámi.

Sektarákvæði frumvarpsins er nýmæli sem beinist að eigendum húsnæðis sem dvelja eða heimila dvöl í húseignum þegar dvöl er í ósamræmi við nýtingartíma samkvæmt þinglýstri kvöð. Tilgangurinn með ákvæðinu eru varnaðaráhrif þar sem mikilvægt er að fólk dvelji ekki í húsum á þeim tíma sem hætta er til staðar svo öryggi fólks, eigenda og annarra eins og lögreglu og björgunarsveitarmanna, sé tryggt.

Að lokum er lagt til að heiti laganna verði framvegis lög um varnir gegn ofanflóðum þar sem ofanflóð hefur verið notað sem samheiti yfir snjóflóð og skriðuföll.

Virðulegur forseti. Ég hef hér rakið meginefni frumvarpsins. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar.