151. löggjafarþing — 23. fundur,  19. nóv. 2020.

skattar og gjöld.

314. mál
[16:18]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U):

Frú forseti. Ég ætla ekki að tala um þetta frumvarp í heild sinni heldur að víkja nokkrum orðum að 8. gr. þess. Með henni leggur hæstv. ráðherra til að framlengja bráðabirgðaákvæði sem kom inn í tekjuskattslögin í vor, að frumkvæði efnahags- og viðskiptanefndar, sem felur í sér að vegna þess ástands sem fylgir kórónuveirufaraldrinum sé ekki á það hættandi að boða fólk á sama stað til að skoða álagningarskrár og hefur verið árum og áratugum saman. Þess vegna var Skattinum veitt heimild til að leggja ekki fram álagningarskrár á yfirstandandi ári vegna tekna á síðasta ári. Hér er lagt til að halda þessari heimild gangandi inn á næsta ár líka.

Þetta ræddum við hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson í þingsal í maí þegar mælt var fyrir áliti efnahags- og viðskiptanefndar. Þá voru bara allt aðrar aðstæður en núna. Þá vorum við sem þing og sem samfélag að bregðast við á miklu þrengri tímaskala en við höfum núna. Þess vegna skil ég vel að nefndin hafi valið þann kostinn að sleppa Skattinum undan því að leggja fram álagningarskrárnar frekar en að fara þá leið sem ég legg til í breytingartillögu; að skrárnar verði einfaldlega færðar á rafrænt form og gerðar fólki aðgengilegar á vefsvæði Skattsins.

Með því móti mætti ná fram sömu markmiðum og ætlast er til með því að leggja skrárnar ekki fram, þ.e. að tryggja að Skatturinn geti tekið tillit til reglna um takmarkanir á samkomum og gætt að almennum sóttvarnasjónarmiðum. Með því að birta skrárnar á rafrænu formi frekar en að sleppa birtingu algerlega er þetta gert án þess að víkja til hliðar því aðhaldshlutverki sem felst í birtingu skránna.

Þetta er reyndar í takt við þingsályktunartillögu sem ég hef lagt fram nokkrum sinnum hér á þingi, um að gera rafræna birtingu að meginreglunni. Þannig er það t.d. í Noregi þar sem sambærilegar skrár hafa legið frammi árum saman. Það verður að segjast eins og er að sá háttur sem hefur verið hafður á hér á landi er löngu úreltur, þ.e. að Skatturinn prenti út doðranta með yfirliti yfir tekjur og gjöld allra íbúa landsins og leggi fram í einhverjum möppum á skrifstofum sem fólk á að koma sér niður á til að skoða. Þetta heitir samkvæmt lögum að skattskrár skuli vera til sýnis á hentugum stað, en þegar árið er orðið 2020, eða 2021 eins og það verður þegar næstu skrár liggja frammi, er þetta ekki hentugur staður lengur í landi þar sem næstum því 100% fólks telja skatt fram með rafrænum hætti. Það er eðlilegt að öll gögn sem koma út úr því framtali verði aðgengileg rafrænt.

Ég legg þessa breytingartillögu fram við 1. umr. til að nefndin lendi ekki í því sem gerðist í vor, að fá ábendingu um þann möguleika að færa birtinguna á rafrænt form of seint til að hægt sé að bregðast við. Auk þess tel ég jákvætt að umsagnaraðilar geti tekið afstöðu til þessarar hugmyndar samhliða þeim hugmyndum sem birtast í frumvarpinu.

Ég vona að þegar við fáum málið til 2. umr. þá verði rafræna birtingin orðin ofan á frekar en að hætta birtingu.