151. löggjafarþing — 23. fundur,  19. nóv. 2020.

skattar og gjöld.

314. mál
[16:23]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir framsöguna. Ég vil koma aðeins inn á 1. gr. frumvarpsins, tryggingagjaldið. Við í Miðflokknum höfum verið þeirrar skoðunar að það hefði átt að lækka gjaldið myndarlega vegna veirufaraldursins og jafnvel fella það niður tímabundið. Ég kem nánar að því á eftir en vil þá víkja aðeins að skattheimtu á íslensk fyrirtæki almennt í alþjóðlegum samanburði. Hún er ein sú hæsta á Norðurlöndum á eftir Noregi. Skattar á fyrirtæki voru hækkaðir eftir efnahagshrunið 2008 í þeirri viðleitni að loka fjárlagagatinu, eins og við þekkjum. Hins vegar hafa þessar skattbreytingar verið að festast í sessi síðan og það hefur gegnumgangandi verið tregða hjá ríkisvaldinu til að lækka tryggingagjaldið, sem er jú einn stærsti tekjustofn ríkisins og áætlað að muni skila u.þ.b. 100 milljörðum í fjárlagafrumvarpinu fyrir næsta ár. Eins og ég nefndi í upphafi höfum við í Miðflokknum talið að það skipti verulegu máli að styrkja með öllum tiltækum ráðum grundvöll fyrirtækjanna í landinu í þeim erfiðu aðstæðum sem við erum í vegna þess að fyrirtækin í landinu gegna lykilhlutverki í því að endurreisa atvinnulífið í því mikla atvinnuleysi sem ríkir núna og kemur til með að hækka, því miður, samkvæmt spám. Nýjustu tölur frá Seðlabankanum eru ekki bjartsýnar um það að viðreisnin eða endurreisnin, viðspyrnan, verði sú sem menn voru að vonast til á næsta ári. Það er því afar mikilvægt að fyrirtækin geti haldið starfsmönnum sínum og jafnvel bætt við sig starfsfólki. Þar gegnir tryggingagjaldið lykilhlutverki, það verður að segjast eins og er, og er verulega mikilvægt í því að styrkja grundvöll fyrirtækjareksturs að þetta gjald sé ekki íþyngjandi.

Hátt tryggingagjald kemur verst niður á fyrirtækjum þar sem laun og launatengd gjöld eru stór hluti kostnaðar. Svo er það þannig að hátt tryggingagjald veikir samkeppnishæfni þessara fyrirtækja mest og bætt samkeppnishæfni Íslands er mjög mikilvæg, sérstaklega í þeim aðstæðum sem við erum í núna og þjóðarbúskapurinn býr við. Það er ákaflega mikilvægt að íslensk fyrirtæki séu samkeppnishæf á alþjóðagrundvelli og þá skiptir náttúrlega verulegu máli að skattumhverfið sé ekki íþyngjandi gagnvart þeim samkeppnisþjóðum sem fyrirtækin eru þá að leita sér markaða á.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er sérstaklega lögð áhersla á lækkun tryggingagjaldsins en hún hefur hins vegar ekki verið nægileg að okkar mati og Samtök iðnaðarins hafa ályktað í þá veru. Þrátt fyrir þá boðuðu tímabundnu lækkun sem er í þessu frumvarpi, um 0,25%, úr 4,90% í 4,65%, eins og hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra nefndi áðan, er reiknað með því að tryggingagjaldið skili engu að síður 100 milljörðum kr. í ríkissjóð á næsta ári.

Eins og er kunnugt er tryggingagjaldið sérstakt gjald sem launagreiðendum ber að greiða af heildarlaunum launamanna sinna. Eins og ég nefndi áðan hefur samkeppnisstaða innlendra fyrirtækja gagnvart erlendum keppinautum versnað á undanförnum árum, m.a. vegna innlendra kostnaðarhækkana, mælt í erlendri mynt. Sú þróun er nú sýnileg í minni verðmætasköpun útflutningsgreinanna, veirufaraldurinn hefur náttúrlega veruleg áhrif þar á líka og svo gagnvart þessum fyrirtækjum á innlendum markaði sem keppa við erlend fyrirtæki. Það er því til mjög mikils að vinna að allt rekstrarumhverfi á Íslandi sé sem hagfelldast þegar við berum okkur saman í þessum efnum við aðrar þjóðir.

Fyrir efnahagshrunið, eða árið 2008, var tryggingagjaldið 5,34% en var hækkað í 8,65% í kjölfar þess. Hækkunin var hugsuð sem tímabundin aðgerð til að standa straum af stórauknum útgjöldum vegna skyndilegs atvinnuleysis. ASÍ hefur einmitt nefnt að það sé mikilvægt að skila þessum hækkunum tryggingagjaldsins til baka og við höfum svo sannarlega haldið uppi þeim málflutningi í Miðflokknum. En eins og ég segi hafa stjórnvöld verið treg til þess að lækka það aftur. Það sætir nokkurri undrun að mínu mati vegna þess að staðreyndin er sú að tryggingagjaldið hefur í vaxandi mæli verið notað til að fjármagna önnur útgjöld ríkissjóðs en því var ætlað. Þetta er náttúrlega alltaf það sem er vandamálið þegar kemur að skattstofnum ríkisins, að lagðir eru á skattar sem eiga að vera tímabundnir og síðan er svo erfitt að fara til baka og taka þá af. Ég nefni bara sem dæmi bifreiðagjaldið sem átti aðeins að vera tímabundið gjald, hvort það var ekki nema til eins árs eða hvað það var á sínum tíma þegar það var sett, en það er búið að vera í ein 25 ár. Þetta virðist vera eitthvert óskrifað lögmál, að þegar skattar eru settir á með þessum hætti eða hækkaðir eða gjöld þá virðist vera afar erfitt að snúa þeirri þróun til baka. Það er eitthvað sem er mjög óheppilegt vegna þess að auðvitað eiga þessi gjöld og skattar að fara í það sem þeim var ætlað í upphafi. Ég nefni kolefnisskattinn sem dæmi, sem hefur hækkað mjög mikið í tíð þessarar ríkisstjórnar. Gjaldið var um 3,5 milljarðar þegar þessi ríkisstjórn tók við 2017. Hann er að skila í ríkissjóð, eða það er áætlað núna í þessum fjárlögum, 6,1 milljarði kr. Þetta er helmings hækkun á því gjaldi á þessum tíma. Síðan þegar maður fer að skoða í hvað gjaldið fer þá er einungis brot af kolefnisgjaldinu eyrnamerkt umhverfismálum eins og gjaldið á í raun og veru að standa undir, aðgerðum í þágu umhverfismála. Einungis brot af gjaldinu eða skattinum fer í það. Það er verið að setja á nýja skatta og ný gjöld og þessi ríkisstjórn hefur verið ansi dugleg við að hækka þau, eins og ég nefni með kolefnisgjaldið. Kolefnisgjaldið er rúmar 11 kr. á hvern lítra af dísilolíu og rúmar 10 kr. á hvern lítra af bensíni og þetta kemur náttúrlega illa niður á þeim sem eru tekjulágir og á landsbyggðinni. Síðan er merkilegt við þetta allt saman að Hagfræðistofnun háskólans gerði úttekt á þessum skatti í ágætri skýrslu sem kom út í sumar, en fékk hins vegar afar litla athygli meðal fjölmiðla, og þar fær þessi skattur einfaldlega falleinkunn, kolefnisskatturinn, af hálfu stjórnvalda. Þessum skatti er ekki jafnað niður á landsmenn með sanngjörnum hætti og bitnar verst á tekjulágu fólki. Hann dregur úr framleiðni, dregur úr atvinnu, hækkar gjöld eins og flutningsgjöld og annað slíkt. Hann er bara óæskilegur fyrir margra hluta sakir, svo það sé nefnt hér í þessari umræðu í kringum skattamál.

Eigi þessi lækkun núna að þjóna þeim tilgangi að reisa við atvinnuvegina, fyrirtækin í landinu, í þeim erfiðu aðstæðum sem þau eru í í dag þarf lækkunin einfaldlega að vera meiri en 0,25%. Það er niðurstaða okkar í Miðflokknum vegna þess, eins og ég sagði í upphafi, frú forseti, að fyrirtækin í landinu gegna lykilhlutverki í því að við náum að endurreisa atvinnulífið og draga úr því mikla atvinnuleysi sem nú ríkir í landinu. Gjaldið er reiknað sem hlutfall af þeim launum sem fyrirtækið greiðir til starfsmanna sinna. Því fleiri krónur sem fyrirtækið greiðir í laun, þeim mun hærri fjárhæð þarf það að greiða í tryggingagjald. Því hærri sem tryggingagjaldsprósentan er, þeim mun dýrari er hver starfsmaður fyrir fyrirtækið sitt. Því hærri sem prósentan er, þeim mun minni launahækkunum getur fyrirtækið staðið undir og síður fjölgað starfsmönnum. Þar er kannski lykillinn að þessu öllu saman, sem við þurfum svo sannarlega á að halda núna, að fyrirtækin geti fjölgað starfsmönnum sínum. Þá á ríkisvaldið náttúrlega að koma til móts við fyrirtækin í þeim efnum, vegna þess einfaldlega að atvinnuleysi er mikil meinsemd í hverri þjóð og mjög erfitt fyrir þann sem verður fyrir því að missa atvinnu sína að horfast í augu við það. Þess vegna er það á margan hátt mikilvægt, bæði tekjulega fyrir viðkomandi fjölskyldu og ekki síður félagslega, og svo skapast einnig heilbrigðisvandamál vegna langvarandi atvinnuleysis. Það er til mikils að vinna að stjórnvöld komi til móts við fyrirtækin til að þau geti bætt við sig starfsfólki á ný. Auk þess vitum við að atvinnuleysi kostar ríkissjóð háar fjárhæðir. Hvert prósent í atvinnuleysi á ársgrundvelli kostar ríkissjóð rúma 6 milljarða kr. Það er því allt sem ber að sama brunni hvað það varðar að lækka þetta gjald sem mest og skiptir verulegu máli í þeim aðstæðum sem við erum í núna.

Gjaldið dregur auk þess úr getu fyrirtækja til að fjárfesta og búa til störf, eins og ég nefndi áðan. Fjárfestingar eru ákaflega mikilvægar akkúrat hér og nú í þeirri stöðu sem þjóðarbúskapurinn og efnahagsmálin eru í. Fjárfestingar stuðla að atvinnu og auknum hagvexti. Þannig ég verð að segja, herra forseti, að ég hefði svo sannarlega viljað sjá, og við í Miðflokknum, ríkisstjórnina taka mun myndarlegar á þessari lækkun en gert er í frumvarpinu.

Í frumvarpinu segir að nettótekjuáhrif af lækkun tryggingagjaldsins um 0,25% á næsta ári séu neikvæð fyrir ríkissjóð um 3,1 milljarð kr. Þá kynni einhver að álykta sem svo að lækkun um 0,5% myndi þýða tekjulækkun fyrir ríkissjóð upp á 6 milljarða kr. Svo er ekki þar sem lækkunin gerir fyrirtækjum auðveldara með að ráða nýtt starfsfólk og gera betur fyrir það sem er fyrir, sem eykur síðan aftur skatttekjur ríkissjóðs. Ávinningurinn af góðri lækkun gjaldsins er því mikill og ekki síst núna þegar erfiðar aðstæður eru í efnahagsmálum þjóðarinnar. Þetta er það sem við í Miðflokknum höfum lagt áherslu á og hefur verið framlag okkar í umræðunni um viðspyrnuna í þeim veirufaraldri og þeim erfiðleikum sem þjóðin hefur þurft að glíma við undanfarið og því miður eru, eins og ég nefndi áðan, spár ekki nógu hagfelldar um að við náum okkur fyrr af stað þó að vissulega séu fréttir af bóluefni jákvæðar. Vonandi verður það að veruleika fljótlega á nýju ári að bóluefni verður komið til Íslands. Það mun að sjálfsögðu breyta stöðunni heilmikið og þá fara hjól atvinnulífsins vonandi að snúast á ný. En vissulega hefðum við viljað sjá að sú viðspyrna yrði kröftugri en gert er ráð fyrir í þeim spám sem við höfum verið að fylgjast með undanfarið og Seðlabankinn fór sérstaklega yfir í þessari viku.

Að sjálfsögðu eru gengismálin áhyggjuefni og alveg ljóst að undanfarið hefur Seðlabankinn verið að kaupa krónur til að sporna við frekari lækkun krónunnar. Það er að sjálfsögðu afar mikilvægt því að það síðasta sem við þurfum á að halda við þessar aðstæður er að verðbólgan fari af stað. Það er að sjálfsögðu áhyggjuefni og einnig er áhyggjuefni, og hefur komið fram í umræðu, vaxtahækkanir tveggja ríkisbankanna sem koma svolítið eins og köld vatnsgusa framan í þá sem hafa verið að breyta lánum sínum og hefur komið heimilunum í landinu gríðarlega vel. Vaxtalækkanir og skuldbreytingar á lánum og annað slíkt hefur komið heimilum landsins gríðarlega vel í þessum erfiðu aðstæðum og þá eru mikil vonbrigði að horfa upp á það að bankarnir séu að hækka vexti á sama tíma og Seðlabankinn lækkar enn frekar stýrivextina.

Ég vil nota tækifærið hér og hvetja hæstv. fjármálaráðherra til að fylgjast grannt með þessu. (Forseti hringir.) Auk þess vil ég hvetja hæstv. ráðherra til að lækka þetta tryggingagjald enn frekar vegna þess að það er grundvöllurinn að því að okkur takist að endurreisa hér atvinnulífið á sem skemmstum tíma.