151. löggjafarþing — 23. fundur,  19. nóv. 2020.

skattar og gjöld.

314. mál
[16:42]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Hvað tryggingagjaldið varðar, lækkun þess eða tímabundna niðurfellingu, þá skiptir útfærslan þar mestu máli. Við höfum lagt áherslu á að það sé afar mikilvægt að styðja við bakið á minni fyrirtækjum sem hafa kannski færri en tíu starfsmenn eða svo. Sú niðurfelling mun aldrei kosta neina 100 milljarða, það veit hv. þingmaður jafn vel og ég. Þetta hefur verið kjarninn í okkar málflutningi, Miðflokksins, að koma til móts við fyrirtæki af þessari stærðargráðu. Það eru vissulega í landinu stöndug fyrirtæki sem veirufaraldurinn hefur ekki haft nein teljandi áhrif á og það er alger óþarfi að fella niður tryggingagjald á slík fyrirtæki. Við erum alveg með það á hreinu og þetta er í okkar tillögu. Það er því óþarfi að snúa út úr varðandi þetta mál og ég hvet hv. þingmann til að kynna sér tillögu okkar.

Minn málflutningur hefur fyrst og fremst snúist um það sem ég held að við hv. þingmaður séum sammála um, að það er mjög mikilvægt í slíkum erfiðleikum að styrkja grundvöll fyrirtækjanna. Þess vegna er myndarleg tímabundin lækkun mjög mikilvæg. Hún mun gera það að verkum að fyrirtækin verða mun betur sett til þess að koma inn í þessa viðspyrnu af fullum krafti sem við vonum að verði sem fyrst, þótt vissulega hafi aðeins dregið úr þeim vonum við nýjustu spár sem ég nefndi áðan. Kjarni málsins er sá að þetta snýst um þau fyrirtæki sem eru í hvað mestum erfiðleikum vegna faraldursins, það var minn málflutningur.