152. löggjafarþing — 23. fundur,  18. jan. 2022.

staðan í heilbrigðiskerfinu.

[14:20]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar Covid-19, sagði á opnum fundi velferðarnefndar í síðustu viku að á síðustu 10–15 árum hafi verið litið á spítalann meira eins og fyrirtæki sem hafi verið rekið með straumlínustjórnun heldur en háskólasjúkrahús. Spítalinn hafi aukið afkastagetu en það hafi verið gert á kostnað rannsókna, menntunar og gæða þjónustu en menntun fólks væri útsæðið fyrir mönnun framtíðar. Sóttvarnalæknir sagði á sama fundi velferðarnefndar að ef ekki væri hægt að gera betur til að auka afkastagetu spítalans í faraldrinum þyrfti að takmarka útbreiðslu Covid í samfélaginu. Það sem straumlínustjórnunin og sparnaðurinn á spítalanum kostar okkur er að við neyðumst til þess að grípa til harðari aðgerða til að koma í veg fyrir útbreiðslu.

Hvað hefur þessi niðurskurður, þessi svokallaði sparnaður, kostað okkur mikið? Það liggur fyrir að kostnaðurinn er gríðarlegur og mjög flókið verður að setja krónutöluhækkun á hann. Glötuð störf, kólnun hagkerfisins, aukin misskipting, aukin einangrun fólks, vaxandi ofbeldi, það er hinn raunverulegi fórnarkostnaður. Starfsmannaflótti af Landspítalanum og fordæmalaus starfsmannavelta hjúkrunarfræðinga er að miklu leyti vegna bágra kjara, mikils vinnuálags og þess að kjaradeilu var lokið með gerðardómi á sínum tíma. Ef við getum ekki boðið upp á umhverfi sem styður við menntun og nýliðun og býður sanngjörn kjör og ásættanlegt vinnuálag glötum við getunni til að byggja upp öflugt heilbrigðiskerfi til frambúðar. Væri ekki skynsamlegt að hækka laun og bæta kjör heilbrigðisstarfsfólks eins og hjúkrunarfræðinga til að auka nýliðun og koma í veg fyrir frekari flótta úr greininni og eins að verðlauna þau fyrir þær fórnir sem þau hafa fært í faraldrinum? Við getum byggt upp afkastagetu spítalans ef við erum tilbúin að launa þeim sem þar starfa.

Svo langar mig að spyrja í lokin: Hvernig ætlar heilbrigðisráðherra að efla menntun og rannsóknir og tryggja að heilbrigðiskerfið fari ekki á hlið í næsta faraldri? Og ég er ekki að spyrja hvort hann ætli að gera það, heldur hvernig hann ætli að gera það. (Forseti hringir.) Þetta skiptir gríðarlega miklu máli og er lykilatriði fyrir framtíð heilbrigðiskerfisins.