152. löggjafarþing — 23. fundur,  18. jan. 2022.

almannavarnir.

181. mál
[16:48]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Mig langar að byrja á að fagna því að hæstv. innanríkisráðherra sé að leggja fram þetta frumvarp, sem tekur á mörgum atriðum sem bent hefur verið á í gegnum árin, atriðum sem við þekkjum sem höfum verið í nánu samstarfi í almannavörnum, og ég veit að hæstv. innanríkisráðherra er einn af þeim. Við sem höfum verið í þessu umhverfi og unnið innan þess vitum að það er margt sem má laga, margt smátt, og þetta frumvarp tekur svo sannarlega á mörgum af þeim atriðum. En ég tel þó mikilvægt að heildarendurskoðun á almannavörnum fari fram eins og áætlað hefur verið að gera. Það mun a.m.k. ekki standa á mínum stuðningi að fara í það. En eins og kom fram í máli hv. þm. Andrésar Inga Jónssonar hefur verið mikið álag á almannavörnum, sér í lagi núna á undanförnum árum og við sem hér erum og samfélagið allt, stöndum í mikilli þakkarskuld við þann fámenna hóp starfsmanna sem stendur vaktina fyrir okkur allan sólarhringinn, alla daga. Það var því mikil ánægja að sjá að í fjárlögum þessa árs var bætt við nokkrum stöðugildum til almannavarna í frumvarpinu, eða mér er sýndist það alla vega. Það er mjög ánægjulegt vegna þess að raunin er sú að innan almannavarna starfa mjög fáir starfsmenn sem þurfa að takast á við erfiðar aðstæður, hvort sem við eigum í höggi við heimsfaraldur eða náttúruhamfarir, og það er sjaldan sem þau fá einhverja hvíld.

Það er líka margt í þessu frumvarpi sem lögfestir atriði sem við sem höfum starfað innan þessa geira þekkjum mjög vel, t.d. skilgreiningarnar á almannavarnastigunum. En það er líka gott að sjá að í þessu frumvarpi eru nokkur atriði skýrð, atriði sem voru kannski ekki nægilega vel skilgreind í núgildandi lögum en tekið er á í þessum þessu frumvarpi.

Sem fyrrverandi stjórnandi íslensku alþjóðabjörgunarsveitarinnar verð ég sérstaklega að fagna 19. gr. frumvarpsins, en þar er tekið á því hvernig við tökum á móti erlendu hjálparliði hingað til lands ef alvarlegt almannavarnaástand skapast. Það er nefnilega þannig að við höfum verið með ferli og annað skilgreint um það hvernig við hjálpum öðrum löndum, en við höfum ekki alveg verið tilbúin að taka á móti aðstoð sjálf. Það eru flækjustig eins og ef við þyrftum að fá teymi lækna, hjúkrunarfræðinga frá útlöndum, mega þeir þá starfa á landinu í neyð? Má koma með leitarhunda, sérþjálfaða rústabjörgunarhunda hingað ef hér yrði stór jarðskjálfti? Það eru atriði þar sem við vorum í raun að nota gamla góða „þetta reddast“ ef þetta gerðist. En þarna er verið að festa það í lög að ráðherra getur tekið ákvarðanir um að veita undanþágu frá ýmsum reglum, sem er bara mjög ánægjulegt að sjá loksins koma í lög, meira en áratug eftir að við flögguðum þessu. Það er nefnilega þannig, eins og einn mesti sérfræðingur Norðurlandanna í viðbrögðum við hamförum, Jesper Lund heitinn, benti á á NORDRED-ráðstefnu hér á Íslandi árið 2006 þegar hann spurði okkur, fulltrúa frá öllum Norðurlöndunum, hvort við værum of stolt til að biðja um hjálp. Við verðum að átta okkur á því, eins og hæstv. ráðherra benti á, að við erum fámennt land. Við getum ekki tekist á við ýmsar hamfarir ein. Þá verðum við að geta beðið um hjálp og við verðum að geta fengið þá aðstoð fljótt og örugglega.

Og bara til að gefa ykkur lítið dæmi: Á þessari ákveðinni ráðstefnu árið 2006 var tekin æfing samhliða ráðstefnunni þar sem átti að hafa kviknað í skemmtiferðaskipi fyrir utan Vestfirði með um 500 manns innan borðs. Þá reyndist það nefnilega vera þannig að við vorum hvorki með, og erum heldur ekki í dag, nægilega mörg brunarými á Íslandi til að taka við ef fleiri en tíu einstaklingar á þessu skipi hefðu hlotið brunasár og hefðum því þurft að óska eftir aðstoð frá Norðurlöndunum og öðrum löndum til að taka við sjúklingum, jafnvel fá sérhæfða slökkviliðsmenn til landsins til að hjálpa til við að slökkva í skipinu. Þetta var einfalt dæmi sem var gefið um að við gætum ekki sinnt slíku útkalli með okkar frábæru sjálfboðaliðum, okkar frábæra fagfólki og okkar góðu almannavörnum, við gætum ekki séð um það sjálf. Þess vegna er rosalega mikilvægt að við séum ekki of stolt til að biðja um hjálp og þegar við biðjum um hjálp þá sé hægt að taka á móti henni á öruggan og snaran hátt. Því fagna ég sérstaklega 19. gr., að þarna sé verið að binda það í lög en ekki bara segja: Þetta reddast.