153. löggjafarþing — 23. fundur,  26. okt. 2022.

ríkisábyrgð ÍL-sjóðs.

[15:18]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegi forseti. Staða ÍL-sjóðs hefur verið í umræðunni undanfarna daga eins og hér má heyra. Tap er á starfsemi sjóðsins uns hann gerir upp sínar síðustu skuldbindingar árið 2044. Þá var áætlað að halli sjóðsins muni nema 400 milljörðum kr. sem ríkisábyrgðin nær yfir nema gripið verði til aðgerða núna. Skýrslan sem hér verður til umræðu vísar til þess að ríkið beri einfalda ábyrgð á íbúðabréfunum sem hægt er að ganga að í greiðsluþroti eða við árangurslaust fjárnám. Hæstv. fjármálaráðherra hefur nefnt þrjár leiðir til að leysa fyrirliggjandi vanda. Sú fyrsta er að gera ekki neitt og standa við skuldbindingar ríkisins samkvæmt ábyrgðinni. Önnur, að krefjast uppgjörs á skuldum sjóðsins nú þegar með að knýja fram skipti. Sú þriðja er að taka upp viðræður við kröfuhafa ÍL-sjóðs sem gæti leitt til slita sjóðsins.

Hér er vert að staldra við. ÍL-sjóður er hluti ríkisins og tók við af Íbúðalánasjóði. Á það hefur Eurostat m.a. bent, í ráðgjöf sinni til Hagstofu Íslands. Bent er á það í lögfræðiáliti vegna málsins að ábyrgð ríkisins sé til komin vegna þeirrar stjórnskipunarvenju að ríkið beri ábyrgð á skuldbindingum opinberra stofnana. Það verður að segjast eins og er að leiðir tvö og þrjú fela í sér að ríkið standi ekki við skuldbindingar sínar gagnvart ÍL-sjóði. Það hefur aldrei gerst að íslenska ríkið hafi ekki staðið við skuldbindingar sínar. Vert er að hafa í huga að lífeyrissjóðir eiga um 80% skuldabréfa ÍL-sjóðs og bréfin hafa gengið kaupum og sölum undir þeim formerkjum að um ríkisskuldabréf sé að ræða eða ígildi ríkisskuldabréfa á grundvelli hinnar einföldu ábyrgðar.

Mín spurning til hæstv. ráðherra er eftirfarandi: Hvernig heldur hann að það fari með lánstraust ríkisins og mat matsaðila á íslenska ríkinu standi íslenska ríkið ekki við skuldbindingar sínar gagnvart skuldum ÍL-sjóðs?