153. löggjafarþing — 23. fundur,  26. okt. 2022.

samstarf við bændur vegna sameiningar Landgræðslunnar og Skógræktarinnar.

[15:32]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hæstv. matvælaráðherra hefur kynnt áform um sameiningu Landgræðslunnar og Skógræktarinnar. Fram hefur komið að stærstu tækifærin með sameiningu stofnananna séu í aukinni samlegð í stoðþjónustu og ýmsum sameiginlegum verkefnum. Eitt af umfangsmestu verkefnunum stofnananna er samstarf við bændur og landeigendur. Þar eru verkefni eins og samstarf og samningar um landgræðslu og skógrækt á því landi sem bændur hafa til umráða, ráðgjöf til bænda og landeigenda um landnýtingu og landbætur og líka samningar við bændur sem eru verktakar í landgræðslu og skógrækt fyrir opinbera aðila.

Um mitt ár 2016 tóku lög um sameiningu Skógræktar ríkisins og landshlutabundnu skógræktarverkefnanna gildi og til varð til ný stofnun, Skógræktin. Í aðdraganda þeirrar sameiningar var lögð áhersla á áframhaldandi virkt samráð Skógræktarinnar og skógarbænda, bæði á landsvísu við Landssamtök skógareigenda og við skógarbændur í hverjum landshluta, samráð um stefnumótun og áherslur í starfinu sem og um einstök verkefni eins og samningagerð, nýsköpun og þróun. Þar var lögð áhersla á hvatningu til ræktunar og samstarf um þróun uppbyggingar skóga, umhirðu og nýtingu skógarauðlindarinnar en þar eru að birtast mikil nýsköpunartækifæri ef rétt er á haldið. Nýjasta tilraunaverkefnið er útflutningur á viðarkubbum úr timbri ræktuðu í Fljótsdal og endurunnu timbri til kyndingar á dönskum heimilum. Við erum að flytja út timbur.

Hæstv. ráðherra. Ég spyr því: Hver hefur aðkoma bænda og umsjónarmanna lands verið að vinnu sem lögð er til grundvallar sameiningaráformum? Hvaða áform eru um aðkomu bænda og landeigenda að frekari undirbúningi sameiningar stofnana og verður lögð áhersla á mótun sérstakrar og formlegrar umgjarðar um samráð og samstarf við bændur og landeigendur?