131. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2004.

Vinnustaðanám.

259. mál
[15:04]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. menntamálaráðherra svörin og hv. þingmönnum fyrir góðar athugasemdir í þessari umræðu. Það sem er ánægjulegt í svörum hæstv. ráðherra er að tilraunin sem við erum að ræða á að geta getið af sér nýtt fyrirkomulag vinnustaðanáms og það er alveg ljóst af reynslunni sem við höfum fengið að víða er pottur brotinn. Við vitum að atvinnulífið er margbreytilegt. Við vitum t.d. að sum af þessum fyrirtækjum sem taka nema eru kannski ekki fyrirtæki heldur bara einyrkjar. Það hlýtur að koma til álita að ríkið komi til móts við þá nema sem vilja stúdera greinar eins og t.d. ljósmyndun sem erfitt er læra hjá stórum fyrirtækjum. Menn þurfa að læra hjá meistara sem er kannski bara einyrki. Það verður að líta þetta öðrum augum en stór fyrirtæki sem geta bætt við sig fólki því umsýsla þeirra varðandi fólk og nema er allt önnur og á allt öðrum skala.

Þessi tilraun er afar athyglisverð og ég þakka hæstv. ráðherra fyrir það að hún skuli ætla að fylgjast vel með því hvernig til tekst og ég hlakka til að sjá niðurstöður tilraunarinnar sem verða birtar fyrri hluta árs 2006 því að það er alveg ljóst að þetta fyrirkomulag verður allt að ganga í endurnýjun lífdaga. Starfsgreinaráðin verða að fara að fúnkera og við þurfum að skoða betur hvernig samspil þessara þátta allra getur gengið upp þannig að sem minnstir hnökrar verði á.