131. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2004.

Samræmd áfengisstefna á Norðurlöndum.

117. mál
[18:07]

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Mikill þrýstingur er á að breyta stefnu varðandi áfengismál hér á landi. Fyrir þinginu liggur frumvarp um lækkun áfengiskaupaaldurs í 18 ár og einnig frumvarp um afnám einkasölu Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins. Umræða fór nýlega fram hér á hinu háa Alþingi varðandi áfengisauglýsingar og síðast en ekki síst er mikill þrýstingur á að lækka verð á áfengi, bæði frá almenningi og ekki síst frá ferðaþjónustunni í landinu, en allar þessar aðferðir hafa stjórnvöld notað til þess að minnka aðgengi að áfengi hér á landi.

Ég tel að umræður um þessi mál þurfi að fara fram á hinu háa Alþingi þar sem allir þessir þættir eru undir. Við þurfum að átta okkur á hvaða áhrif hver og einn þeirra hefur á neyslu áfengis og ekki síst hvaða afleiðingar rýmkun reglna hefur til aukins aðgengis barna og ungmenna að áfengi.

Ég hef verið talsmaður aukins frelsis í þessum málum. Ég er hins vegar ekki talsmaður þess að öllum þessum þáttum verði gefinn laus taumur á sama tíma. Ég hvet til þess að við áttum okkur á í hvaða röð við viljum aflétta hömlum, hvernig við viljum gera það og á hvað löngum tíma, til þess að geta metið áhrif hverrar breytingar fyrir sig.