131. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2004.

Vinnutilhögun unglækna.

158. mál
[18:14]

Fyrirspyrjandi (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf):

Frú forseti. Vinnutilhögun lækna í starfsnámi eða svokallaðra unglækna hefur lengi verið deilumál hér á landi. Félag unglækna hefur lengi bent á að núverandi tilhögun vinnu unglækna nær ekki nokkurri átt. Unglæknar telja að jafnvel sé verið að brjóta á þeim lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980. Þessi lög eiga m.a. að tryggja eðlilega hvíld viðkomandi launþega.

Hins vegar hefur verið bent á að kjarasamningar lækna undanþiggja lækna frá ýmsum ákvæðum sem má finna í lögunum, svo sem frítökurétti. Sé hins vegar vikið frá lögbundnum lágmarksréttindum er alveg ljóst að lög eru brotin. Kjarasamningar geta ekki breytt lögbundnum lágmarksréttindum. Nú er Félag unglækna að huga að því hvort það muni fara í málssókn vegna þessa. Samkvæmt skýrslu starfshóps um vinnutíma Landspítalans frá 5. mars sl. sem var send Jóhannesi Gunnarssyni lækningaforstjóra, og ég hef undir höndum, kemur fram að m.a. á geð-, gjörgæslu- og svæfingardeildum séu sólarhringsvaktir hjá kandidötum og læknum án sérfræðileyfis. Vaktir á viðkomandi deildum hjá þessum viðkomandi einstaklingum standast ekki ákvæði laga um lágmarkshvíld.

Of mikil vinna lækna og þar á meðal unglækna er engum til góða. Þessir einstaklingar vinna afar mikla vinnu þar sem líf og heilsa eru iðulega undir. Að undanskilja unglækna frá eðlilegum hvíldartíma, hvað þá án nokkurra réttinda á móti, er ekki rétt að gera. Breytingar á vöktum unglækna voru byrjaðar í haust með því að unglæknar fengu frí frá dagvinnu fyrir og eftir vakt. Þá mætti fólk í vinnuna kl. 16 og vann til kl. 8 morguninn eftir. Samkvæmt forsvarsmönnum unglækna gat yfirstjórn spítalans hins vegar ekki sætt sig við það og skipaði því sviðsstjórum að breyta aftur yfir í gamla kerfið þar sem unglæknir vinnur í rúman sólarhring þegar hann er á vakt. Í núverandi kerfi getur því unglæknir þurft að vera á sólarhringsvakt og síðan þurft að vinna næsta dag á eftir á venjulegu dagvinnukaupi. Hver maður sér að þetta fyrirkomulag nær ekki nokkurri átt. Hér er því bæði verið að brjóta á réttindum unglækna og sömuleiðis er það ekki nokkrum manni í hag að hafa örþreyttan lækni á vakt þar sem ákvarðanir hans geta varðað líf og dauða.

Ég spyr þess vegna hæstv. heilbrigðisráðherra hvort hann telji vinnutilhögun svokallaðra unglækna forsvaranlega og einnig vil ég fá að vita hvort hæstv. heilbrigðisráðherra sé tilbúinn að beita sér fyrir breytingum á vinnutilhögun unglækna, t.d. með frítökurétti, álagi eða breyttum vöktum handa unglæknum.