132. löggjafarþing — 24. fundur,  17. nóv. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[11:53]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Utanríkismálaumræðan er ein af þeim skemmtilegri hér í þinginu. Enda er mjög fróðlegt að líta til baka og sjá hvað þingmenn hafa sagt í fyrri ræðum, sé horft til baka um nokkur ár. Heimsmyndin hefur breyst svo geysilega og allt breytist mjög hratt. Ef maður lítur til baka sjáum við mjög miklar breytingar eins og fall kommúnismans 1991 þegar Sovétríkin féllu. Ég vil líka nefna tilkomu alvarlegra hryðjuverka, bæði í Bandaríkjunum, í London og við sjáum að fleiri ríki, t.d. Danmörk sem eru að styrkja innviði sína.

Evrópusambandið hefur einnig breyst geysilega mikið og hratt. Múrinn féll á sínum tíma. Fleiri ríki eru að koma inn, önnur ríki bíða og flýta sér að bæta innviði sína þannig að þau komist inn sem fyrst. Þau njóta ríkulegrar aðstoðar við það að hálfu ESB.

NATO hefur breyst í grundvallaratriðum. Fleiri ríki hafa komið þar inn og verkefnin hafa breyst í takt við nýja skipan heimsmála.

Ég vil líka koma inn á það sem hæstv. utanríkisráðherra minntist á, þ.e. byltinguna í fjarskiptum og upplýsingatækni. Hún hefur gerbreytt alþjóðasamskiptum og ég vil minna á að einungis eru 16 ár síðan internetið kom til Íslands og einungis 11 ár síðan við fengum GSM-síma. Það er ótrúlega stutt síðan og þessi tækni hefur breytt samfélaginu á undraskömmum tíma. Við lifum í allt öðru samfélagi nú en fyrir 20 árum. Hnattvæðingin hefur hafið innreið sína og breytir að sjálfsögðu utanríkismálum og stöðu okkar í heiminum eins og gefur að skilja.

Talsvert hefur verið rætt um Evrópusambandið, sem er eðlilegt enda höfum við þar gífurlegra hagsmuna að gæta. Framsóknarflokkurinn markaði stefnu sína núna á flokksþingi í febrúar 2005. Þar stendur, með leyfi virðulegs forseta:

„Á vettvangi Framsóknarflokksins skal halda áfram upplýsingaöflun og vinnu við mótun samningsmarkmiða og hugsanlegs undirbúnings aðildarviðræðna við Evrópusambandið. Niðurstöðu þeirrar vinnu skal bera undir næsta flokksþing til kynningar.

Komi til aðildarviðræðna við ESB skulu niðurstöður slíkra viðræðna bornar undir þjóðaratkvæði.“

Eins og margir muna þá skók EES-samningurinn Framsóknarflokkinn. Þar var tekist á. Ég var í þeim hópi sem studdi mjög EES-samninginn. Ég held að framsóknarmenn telji almennt, þegar þeir líta til baka, að EES-samningurinn hafi verið geysilega jákvætt skref. Ég vil líka segja að á flokksþingi okkar í febrúar 2005 má segja að nokkur breyting hafi orðið í orðræðunni gagnvart Evrópusambandinu innan Framsóknarflokksins. Kannski er hægt að kalla það kynslóðaskipti, ég skal ekkert um það segja. A.m.k. var unga fólkið almennt, þótt það sé ekki svart/hvít umræða, mun jákvæðara gagnvart aðild að Evrópusambandinu en við höfum áður heyrt á vettvangi Framsóknarflokksins. Og hvað var unga fólkið að segja? Jú, það vildi fá tækifæri. Það sagðist sjá að Evrópusambandið væri einsleitt og við værum hluti af því. Við erum með EES-samninginn og að sjálfsögðu höfum við þróast eins og Evrópusambandið vegna þess. Það hefur fært okkur margt mjög hagstætt.

Unga fólkið menntar sig og nýtir tæknina. Það hugleiðir að stofna fyrirtæki og sumir hafa gert það. Þau vilja fara í útrás. Þau fylgjast með sveiflu krónunnar og fylgjast með evrunni. Þau fylgjast með því hvernig önnur ríki hafa gengið í Evrópusambandið og notið undanþágna, t.d. Malta. Menn hafa rætt um að á vettvangi sjávarútvegsins gætum við fengið slíkar undanþágu. Menn hafa trú á því, af því það er ekki Evrópusambandinu í hag að veita okkur ekki ákveðið svigrúm áfram gagnvart stýringu á sjávarauðlindum okkar. Þannig var mun jákvæðari tónn gagnvart Evrópusambandsaðild en ég hef upplifað áður í Framsóknarflokknum. Ég vildi draga þetta sérstaklega fram af því ég tel að það sé að verða breyting í Framsóknarflokknum að þessu leyti. Nú er unnið að því í Evrópunefnd að móta samningsmarkmið og verður spennandi að sjá hvernig því reiðir af.

Við fylgdumst með landsfundi Sjálfstæðisflokksins að þessu leyti, þ.e. Evrópuumræðunni sem þar fór fram. Maður þykist hafa skynjað á síðustu árum að vaxandi hópur innan Sjálfstæðisflokksins, sérstaklega í viðskiptalífinu, vildi skoða frekari tengsl við Evrópu og hugsanlega aðild að Evrópusambandinu. En svo var ekki að sjá, miðað við niðurstöðu landsfundarins. Þar er ákveðin stefna mörkuð og sagt að ekki eigi að skoða nein slík mál á næstunni. Í yfirlýsingu forustumanna flokksins var ekki að finna neinar viðhorfsbreytingar gagnvart ESB. Það hefur a.m.k. ekki skilað sér í orðræðuna hjá forustunni. En ég fullyrði að talsverð viðhorfsbreyting sé að verða innan Framsóknarflokksins og sérstaklega hjá unga fólkinu.

Varðandi önnur mikilvæg mál í utanríkisumræðunni vil ég nefna þróunaraðstoðina. Framsóknarflokkurinn ályktaði á eftirfarandi hátt á flokksþinginu 2005, með leyfi virðulegs forseta:

„Þróunarsamvinna Íslands verði tryggð í takt við alþjóðlegar skuldbindingar. Skal hún markast af langtímaáætlunum um uppbyggingu menntunar og fræðslu innan þeirra samfélaga sem Íslendingar starfa með hverju sinni.“

Við styðjum þessa stefnu sem við höfum fylgt, ríkisstjórnarflokkarnir, á Íslandi, þ.e. að stórauka þróunaraðstoð og uppbyggingu friðargæslunnar. Þátttaka okkar í friðargæslustarfi beinist að því að byggja upp inniviði stríðshrjáðra þjóðfélaga og þar höfum við staðið okkur vel. Ég vil nefna sérstaklega Írak, Afganistan, Kosovo, Bosníu og Sri Lanka. Ég vil taka undir með hæstv. utanríkisráðherra varðandi það sem hann sagði hér um Írak, að þó að ýmislegt gangi nú brösuglega þar þá er mjög ánægjulegt að fylgjast með skrefum þeirra í átt til lýðræðis. Þar var þjóðaratkvæðagreiðsla um stjórnarskrána nýlega og þingkosningar í desember þannig að þar er ánægjuleg þróun á ferðinni gagnvart lýðræðinu og vonandi gengur það vel í framhaldinu.

Ég vil líka minnast á verkefni UNIFEM í Kosovo. Við í utanríkismálanefnd erum nýlega búin að fá kynningu á vilja UNIFEM til að fara í frekari verkefni. Þar var um mjög spennandi verkefni að ræða.

Hér hefur verið minnst á ógnina sem steðjar að mannkyninu. Það var rætt hér áðan um að fjöldi manns þyrfti að lifa af innan við tveim dollurum á dag. Ljóst er að þar er um stórt verkefni að ræða sem við Íslendingar eigum að taka þátt í og það ætlum við okkur. Nú stafar einum þriðja hluta mannkyns ógn af skorti á hreinu vatni og hreinlætisaðstöðu. Á tíu sekúndna fresti deyr manneskja vegna þessa og 90% þeirra eru börn undir fimm ára aldri. Þessi vandi er langmestur í þróunarríkjunum. Nefna má að konur í Afríku ganga að meðaltali sex kílómetra á dag eftir hreinu vatni og ungar stúlkur hætta í skóla margar vegna þessa. Íslendingar settu sér markmið ásamt alþjóðasamfélaginu í Jóhannesarborg 2002 um að helminga fyrir árið 2015 þann hluta mannkyns sem býr ekki við aðgang að hreinu vatni og hreinlætisaðstöðu. Við verðum að gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að standa við þau. Áætlað er að þetta muni kosta alþjóðasamfélagið um 11 milljarða dollara. En hver er ágóðinn? Jú, hann er 63 milljarðar dollara. Ágóðinn er því sexfaldur miðað við útgjöldin þannig að þetta er verkefni sem við eigum að sinna með alþjóðasamfélaginu.

Ég vil líka minnast á í sambandi við þróunaraðstoð að jarðhitaskóli Sameinuðu þjóðanna er mjög mikilvægt framlag okkar til þróunarsamvinnu. Þar hafa verið nemendur frá 40 löndum. Þeir eru langflestir frá þróunarríkjum, eiginlega allir frá þróunarríkjum og þar kennum við þeim að nýta jarðvarma, en hann er mjög víða að finna í þróunarríkjunum. Við sláum margar keilur í einu með því. Við hjálpum þessum ríkjum til sjálfshjálpar, aukum þar velmegun og að sjálfsögðu minnkar mengun í þessum ríkjum af því að þau þurfa þá ekki að nýta sér kol og olíu á meðan þau nýta jarðvarma.

Virðulegur forseti. Norrænt samstarf er einn af hornsteinum íslenskrar utanríkisstefnu. Framsóknarflokkurinn hefur stutt norrænt samstarf heilshugar í gegnum árin og það samstarf fer fram á vettvangi Norðurlandaráðs, norrænu ráðherranefndarinnar og Norðurskautsráðsins, en að sjálfsögðu hefur það samstarf breyst mjög mikið hin seinni ár, sérstaklega vegna Evrópusambandsins. Segja má að hið gamla góða norræna samstarf haldi gildi sínu en það hefur að vissu leyti líka lifnað svolítið við vegna þess að menn þurfa að standa saman á vettvangi ESB til þess að koma hagsmunamálum sínum á framfæri, en Norðurlöndin eiga yfirleitt og nánast alltaf sameiginlegra hagsmuna að gæta.

Ég vil líka minnast í þessu sambandi á Norræna félagið en það sinnir að mínu mati mjög mikilvægu verkefni, t.d. Nordjob, við að efla ungmennasamskipti milli landa. Það er mjög mikilvægt að ungmenni okkar kynnist Norðurlöndunum af eigin raun þannig að þau skynji vel rætur sínar.

Virðulegur forseti. Hér hefur verið minnst á öryggisráðið. Framsóknarflokkurinn styður framboð Íslands til öryggisráðsins eins og fram hefur komið margoft. Við teljum að við höfum þar hlutverki að gegna. Við höfum aldrei setið í öryggisráðinu. Norðurlöndin styðja framboð okkar. Þegar við tókum ákvörðun um að fara í framboðið leit að vísu ekki endilega út fyrir að kosningabarátta um sætið yrði mikil. En nú hafa bæði Austurríki og Tyrkland gefið kost á sér og þau eru sterkir keppinautar. Því er mjög mikilvægt að við stöndum okkur vel í þessu framboði. Ég styð heils hugar þá stefnu sem hæstv. utanríkisráðherra hefur komið á framfæri, þ.e. að við eigum að gæta hófs í þessu framboði. Við eigum að nýta fjármagnið vel og það er ljóst að við getum ekki keypt þetta sæti. Við eigum því ekki að nota óþarflega mikið fjármagn í þessa kosningabaráttu. En við eigum að vanda okkur við hana á allan hátt.

Varðandi varnarsamninginn er ljóst að Framsóknarflokkurinn ályktaði um hann á flokksþingi sínu. Þar segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Staðið verði við tvíhliða varnarsamning Íslands og Bandaríkjanna.“

Við teljum að varnarsamningurinn sé mikilvægur. Hann byggir á NATO-samningnum sem við höfum verið aðilar að síðan 1949, en eins og allir vita gegnir Atlantshafsbandalagið lykilhlutverki í alþjóðasamstarfi okkar og varnarsamstarfi þannig að við viljum byggja áfram á þessum samningi. Við vitum að heimsmyndin er breytt og Bandaríkjamenn taka mið af því. Þeir eru að draga mjög úr hernaðarviðbúnaði sínum í Evrópu. Í sumar tilkynnti bandaríska varnarmálaráðuneytið að 50 þúsund þeirra 112 þúsund bandarískra hermanna sem eru í Evrópu yrðu fluttir heim fyrir árið 2010 og ellefu herstöðvum lokað. Að sjálfsögðu taka því Bandaríkjamenn mið af breyttri heimsmynd. Við höfum í okkar samningaviðræðum rætt um að við séum tilbúin til að koma frekar að rekstri flugvallarins í Keflavík enda er borgaraflug að verða þar miklu umfangsmeira en áður hefur verið. Það er líka hluti af hnattvæðingunni sem ég kom inn á hér áðan.

Ég verð að viðurkenna að ég áttaði mig ekki alveg á ræðu fulltrúa Samfylkingarinnar hér, hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Það er eins og Samfylkingin geti ekki alveg komið á framfæri hreinni línu í varnarmálunum. Það er talað um að gera einhvers konar öryggismat, eins og það hafi ekki verið gert. Auðvitað ganga samningaviðræðurnar út á það hvað menn telja að þurfi hér af vörnum. En það er svolítið merkilegt varðandi Samfylkinguna að það er mjög erfitt að henda reiður á stefnu hennar gagnvart varnarliðinu.

Virðulegur forseti. Að endingu vil ég gera að umtalsefni loftslagsbreytingar sem hæstv. utanríkisráðherra kom inn á áðan. Það er alveg ljóst að Kyoto-bókunin er eina verkfærið sem við höfum til þess að takast á við loftslagsbreytingar. Það er auðvitað afar neikvætt að Bandaríkjamenn hafi ekki talið sér fært að sitja við það borð, þ.e. að gerast aðilar að Kyoto-bókuninni. Þeir eru stærsti einstaki losarinn meðal iðnríkja. Þeir losa 36% af losun iðnríkjanna. Alþjóðlega orkumálastofnunin spáir því að á næstu 30 árum aukist orkuþörfin um 50% í heiminum og allt útlit er fyrir það að þessari orkuþörf verði mætt með olíu og kolum að nánast öllu leyti, ekki alveg öllu leyti en að langmestu leyti. Við á norðurslóðum sjáum, miðað við vísindarannsóknir sem komu fram í ACIA-skýrslunni svokölluðu, að hér mun hiti hækka um fjórar til sjö gráður á næstu 100 árum. Það er tvöföld hækkun á hnattræna vísu. Það eru því geysilegir hagsmunir okkar að pressa á Bandaríkjamenn gagnvart Kyoto-bókuninni og ég skora á hæstv. utanríkisráðherra að beita sér fyrir því eins og honum er unnt.