132. löggjafarþing — 24. fundur,  17. nóv. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[12:08]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég óska Framsóknarflokknum til hamingju í dag. Talsmaður hans, hv. þm. Siv Friðleifsdóttir, lýsti því yfir að flokksþing Framsóknarflokksins hefði tekið upp nákvæmlega sömu stefnu varðandi Evrópusambandið og Samfylkingin tók árið 2001. Þetta er alla vega framför, frú forseti, og sýnir að batnandi mönnum er best að lifa.

Verst er þó að Framsóknarflokkurinn hefur tveimur sinnum áður stigið skref í átt að Evrópu en jafnan hörfað. Mig langar því að spyrja hv. þm. Siv Friðleifsdóttur hvort hún tilheyri minni hluta innan Framsóknarflokksins varðandi þessa skeleggu afstöðu sína um það að nálgast Evrópusambandið.

Í öðru lagi langar mig til þess að spyrja hv. þm. Siv Friðleifsdóttur nánar út í afstöðu hennar til varnarmála. Er hún sammála því sem virðist vera meginsamningsmarkmið núverandi hæstv. utanríkisráðherra, að samningaviðræðurnar gangi út á það að halda þeim fjórum þotum sem nú eru hér?

Í þriðja lagi langar mig til þess að inna hana eftir afstöðu hennar til fangaflutninganna. Þýska stórblaðið Tages Zeitung hefur upplýst að miklu fleiri meintar fangaflutningavélar hafa notað Ísland en áður var talið eða 67. Þetta gefur í dag stórblöðum í Evrópu tilefni til þess að halda því fram að Ísland sé í raun miðstöð slíkra fangaflutninga til landa þar sem hugsanlega er beitt pyndingum. Mig langar að spyrja hv. þm. Siv Friðleifsdóttur hvort hún sé mér sammála eða ósammála um að það ætti að gefa út fortakslaust bann um að vélar sem vitað er að hafi verið notaðar í þessum tilgangi fljúgi um lofthelgi Íslands og/eða millilendi á Íslandi.